145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

uppbygging ferðamannastaða og samgöngukerfis.

[15:31]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það blasir auðvitað við öllum að ríkisstjórnin nær ekki utan um þetta verkefni. Það getur vel verið að til sé langur listi yfir aðgerðir sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur gert, en þær duga ekki til og það sjá allir. Það er skortur á uppbyggingu í samgöngumálum, það er skortur á að tryggja sveitarstjórnum og ferðamannastöðum nauðsynlegt fjármagn til að byggja upp, það er skortur á lagalegri umgjörð heimagistingar og svo framvegis. Ekkert af þessu hefur verið leyst í tíð núverandi ríkisstjórnar og ekki er í augsýn að það verði gert. Það birtist hér alger skortur á langtímahugsun, að menn plani fram í tímann og geri áætlanir. Allt sem hefur verið gert í þessum efnum hefur verið fólgið í því að skammta þessum málaflokki fjármagn á fjáraukalögum. Það gengur ekki. Það gengur ekki, hæstv. forsætisráðherra, að fara eftir einhverjum gömlum áætlunum frá Guðjóni Samúelssyni í þessum efnum.