145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

skýrsla um öryggi á ferðamannastöðum.

[15:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra út í ferðamálin. Það er bara þannig að það er ríkisstjórnarinnar sem nú er við völd að framkvæma. Ef hún ætlar að þakka sér það sem vel er gert þá verður hún líka að þola gagnrýni.

Ferðamálastofa, Umhverfisstofnun og Landsbjörg skiluðu af sér skýrslu til ráðherra árið 2011 sem heitir Öryggi á ferðamannastöðum — Stefna til 2015. Þetta eru drög og voru aldrei samþykkt, ef ég skil rétt, af þáverandi ráðherra, en þetta er mjög góð skýrsla.

Í henni er aðgerðaáætlun, flokkað hverjir eiga að bera ábyrgð á hverju, það er verið að flokka svæðin eftir því hversu mikil hættan er, hvað eru forgangssvæði, hvar þarf að byrja, og þar er Reynisfjara meðal annars nefnd til sögunnar. Að mínu viti er þetta mjög gott plagg og væntanlega er þetta ein af þessum skýrslum sem enduðu ofan í skúffu.

Nú skilst mér að einhverjir starfshópar séu að störfum og meðal annars að fjalla um öryggi ferðamannasvæða. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort henni sé ekki örugglega kunnugt um tilvist þessarar skýrslu og hvernig standi á því að nú er árið 2016 og við erum í raun varla byrjuð á verkefnunum sem tiltekin eru í þessu góða plaggi.

Ég hef áhyggjur af þessu. Ég hef miklu meiri áhyggjur af þessum málaflokki en hæstv. forsætisráðherra hefur greinilega. Við ráðum ekki við umfang vandans. Ég geri ekki lítið úr því að þetta er mjög stórt verkefni en við viljum öll að þetta gangi vel og við viljum hjálpast að við það þannig að við viljum hjálpa ráðherra. Ef hún vill koma með mál hér inn í þingið til að greiða úr þessu þá erum við öll af vilja gerð. En þetta er á ábyrgð stjórnvalda og þau verða að fara að sýna hvað þau ætla sér að gera í þessum málum.