145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

styrkir og uppbætur til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra.

516. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Aðgengismál af öllu tagi eru hreyfihömluðu fólki gríðarlega mikilvæg, en skortur á aðgengi útilokar fólk frá þátttöku í samfélaginu og gerir það jafnframt háð öðru fólki. Þá er það auðvitað svo að ólík svið samfélagsins eru tengd órofa böndum. Til að aðgengi á einu sviði komi að fullu gagni mega önnur svið ekki halda áfram að vera óaðgengileg. Þess vegna er til að mynda lítið gagn í aðgengilegum skólum eða vinnustöðum ef samgönguleiðir eru óaðgengilegar og fólk kemst ekki milli heimilis og vinnu. Þetta er inngangur sem mér finnst mikilvægt að fara með í upphafi þessarar fyrirspurnar.

Í desember árið 2014 skilaði starfshópur á vegum velferðarráðuneytisins skýrslu um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks. Það er ágætt plagg þar sem settar eru fram ýmsar tillögur og er hægt að nálgast skýrsluna á vef velferðarráðuneytisins. Ég hef vitaskuld ekki tíma til þess að rekja allt það sem er sett fram í skýrslunni enda eru tillögur og niðurstöður settar fram í 16 punktum. Þess vegna ætla ég í þessum stutta fyrirspurnatíma að beina sjónum aðallega að einni tiltekinni tillögu sem fjallað er um í skýrslunni. Hún fjallar um það skilyrði sem sett er fyrir veitingu uppbóta og styrkja til bifreiðakaupa að viðkomandi hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

Starfshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að heimila undantekningar frá þessu skilyrði og nefnir sem dæmi þá sem búa sjálfstætt og hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélög. Þar undir fellur vitaskuld notendastýrð persónuleg aðstoð. Helsta röksemdin sem starfshópurinn færir fram er sú að styrkir til bifreiðakaupa eigi fyrst og fremst að notast hinum hreyfihamlaða og að því markmiði eigi að vera hægt ná með öðrum aðferðum en þeim að takmarka styrkinn við að viðkomandi aki sjálfur bifreiðinni eða heimilismaður.

Ég vil því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvað líði endurskoðun á því skilyrði sem nú gildir um veitingu uppbóta og styrkja til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra að bifreiðakaupandi aki sjálfur bifreiðinni eða annar heimilismaður. Svo verð ég í seinni innkomu minni að (Forseti hringir.) koma að öðrum breytingum sem kunna að vera fyrirhugaðar í takt við þessa skýrslu.