149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Á síðustu dögum og vikum hefur það ekki farið fram hjá okkur sem hér störfum að hælisleitendur hafa staðið fyrir friðsælum, nota bene friðsælum, mótmælum hér fyrir utan vinnustað okkar. Nú hefði maður haldið að alþingismenn væru það vel að sér, jafnvel betur að sér en flestir, um lýðræðisfyrirkomulagið sem við búum við á Íslandi að þeir myndu ekki gefa það frá sér hér í ræðustól í gær í þingsal að það væri á einhvern hátt ekki í lagi að nýta sér þann lýðræðislega og stjórnarskrárvarða rétt að mótmæla, sem hælisleitendur hafa gert svo vel á síðustu dögum og vikum.

Eins og hv. þm. Sigríður María Egilsdóttir kom inn á áðan hefur mest verið rætt um mótmælin sjálf, hvernig þau hafa farið fram, en minnst um kröfurnar sem mótmælin hafa snúist um. Því vil ég nota þann stutta tíma sem eftir er til þess að fara yfir þær sjálfsögðu og réttlátu kröfur sem hælisleitendur og flóttafólk hér á Íslandi gera. Kröfulistinn byrjar á þennan veg:

„Þetta er eins og fangelsi, á hverju kvöldi er einhver sóttur af lögreglunni til að vera brottvísað.

1. Ekki fleiri brottvísanir.

Árið 2018 fengu 160 vernd af 790 sem sóttu um. 594 var brottvísað, það eru rúmlega 11 manns á viku. Engar opinberar tölur hafa verið birtar 2019 en samkvæmt fólkinu sem býr á Ásbrú, lokuðum flóttamannabúðum nálægt Keflavík, kemur lögreglan á nærri því hverju kvöldi að sækja einn eða fleiri einstaklinga til brottvísunar.

2. Efnismeðferð fyrir alla. Niður með Dyflinnarreglugerðina.

Íslenskum yfirvöldum ber að skoða mál hælisleitenda sem hingað koma til hlítar áður en ákvörðun er tekin. Aldrei ætti að brottvísa fólki, sérstaklega ekki án þess að mál þeirra sé tekið til efnismeðferðar.

3. Leyfi til að vinna og öruggt húsnæði. Til þess að geta fengið tímabundið atvinnuleyfi á meðan (Forseti hringir.) á málsmeðferð stendur þarf einstaklingur að sýna fram á húsaleigusamning, ráðningarsamning og sjúkratryggingu, allt án þess að vera með kennitölu. Einstaklingum er gert að flytja út úr húsnæði (Forseti hringir.) Útlendingastofnunar, óháð fjölskylduhögum og starfshlutfalli, um leið og þeir fá bráðabirgðakennitölu. (Forseti hringir.)

4. Jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu.

Án kennitölu er oft erfitt og jafnvel ómögulegt að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Sögur af vanrækslu eru fjölmargar.“ (Forseti hringir.)

Afsakið, virðulegi forseti. Ég ætla að klára þetta:

„5. Flóttamannabúðir á Ásbrú lagðar niður.

Á Ásbrú eru lokaðar flóttamannabúðir þar sem um 100 flóttamenn eru vistaðir. (Forseti hringir.) Öryggisverðir eru við inngang allan sólarhringinn.“