149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:09]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og nefndinni fyrir ágætt álit. Mig langaði að koma hingað upp til að fagna því, því að ég heyri að hæstv. ráðherra tekur þetta mál mjög alvarlega enda er full ástæða til. Þetta er áfellisdómur yfir stjórnsýslunni og eftirliti okkar með sjávarútveginum sem er einn af okkar stærstu atvinnuvegum. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við tökum vel á þessu máli. Ábyrgð þingsins er ekki síður mikil þar sem verið er að gagnrýna að þarna skorti skýrleika og heimildir inn í löggjöfina.

Ráðherra endaði reyndar á að svara stóru spurningunni minni, sem var þessi tímarammi sem ráðherra talar um að starfshópurinn, verkefnishópurinn muni skila af sér í haust. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í því samhengi: Sér hann fyrir sér að hópurinn skili fullbúnum tillögum sem ráðherra muni þá koma með inn í þingið strax á haustmánuðum þannig að hægt sé að bregðast hratt og örugglega við þeim alvarlegu brotalömum sem virðast vera í löggjöfinni og í starfsumhverfi Fiskistofu?