149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar ábendingar. Ég vek hins vegar athygli á því sem ég tek undir í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem hún talar um í áliti sínu að fleiri möguleikar séu í stöðunni en að fjölga eftirlitsmönnunum o.s.frv. Þetta snýst ekki allt um fjármuni. Þetta snýst líka um að bæta úr hlutum sem er tiltölulega auðvelt að sumu leyti að gera, eins og t.d. ábendingin hjá nefndinni varðandi skráningar og annað hjá Fiskistofu. Í mínum huga eru þetta dálítið samhangandi þættir, þ.e. að stjórnvöld komi að því að styðja og styrkja undirstöður eftirlitsins en sömuleiðis að fara aðeins inn í stofnunina sjálfa og skoða kannski þá verkferla sem þar má bæta, sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nefnir réttilega að eru undirstrikaðir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Við sáum það ágætlega í þeirri skýrslu hvaða áhrif þetta mikla rask sem eðlilega fylgir flutningi stofnunarinnar hefur á starfsemina og kann að vera að hluti af því eigi enn eftir að setjast. Vissulega munum við leggja okkur fram um eftir föngum að tryggja þá fjármögnun sem skipulag eftirlitsins kallar á. Enginn vafi er á því að við munum ræða það.

Ég nefni undir lok andsvarsins að ég hef ekki enn heyrt í nokkurri eftirlitsstofnun sem ekki þiggur auknar fjárheimildir frá Alþingi.