149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Hæstv. ráðherra segir í síðara andsvari að hann þekki ekki neina eftirlitsstofnun sem myndi ekki þiggja meira fjármagn. Það er eflaust rétt en hérna erum við samt sem áður að tala um eftirlitsstofnun sem segist hafa verið undirfjármögnuð og undirmönnuð í mörg ár og að hún geti ekki sinnt því hlutverki sem hún á að sinna samkvæmt lögum með því fjármagni sem er til staðar.

Þetta kemur ekki aðeins fram hjá þeim. Þetta kemur líka fram hjá Ríkisendurskoðun sem er eftirlitsaðili okkar, sem hefur að undirskipun þingsins eftirlit með framkvæmdarvaldinu sem ráðherra ber ábyrgð á. Okkur finnst eðlilegt að ráðherra hafi heimildir. Í gamla fjárlagakerfinu gat hann notað fjáraukalög til þess að fjármagna það sem þurfti að fjármagna eftir á, t.d. eftir áfellisdóm um alvarleg brot sem ógna sjálfbærni við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Í nýja fjárlagaumhverfinu er heimild til handa ráðherra til að nota sjóði innan ráðuneytis síns þegar við fáum alvarlegar upplýsingar um mikla bresti þegar kemur að eftirliti.

Það sem mig langar að spyrja ráðherrann um er til hverra af þeim tillögum sem eru lagðar til í skýrslu Ríkisendurskoðunar hann hyggist grípa strax. Það þarf ekki að bíða í hálft ár meðan þetta situr í nefnd. Það hljómar eins og nefndin sé fagleg en við sjáum það bara þegar við sjáum hvað kemur út úr henni. Ætlar ráðherrann að bíða í hálft ár og leyfa þeim kringumstæðum sem hann veit að eru til staðar að skemma sjálfbærni nýtingar á auðlindinni okkar? Það kostar inn í framtíðina. Ætlar hann að bíða í hálft ár með að grípa til einhverra þeirra aðgerða sem lagðar eru til til þess að lögum sé fylgt í landinu?