149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Varðandi fjárheimildir var það ekki svo að ráðherra hefði frjálsar hendur, það varð að sækja í gamla kerfinu. Sækja varð um fjárheimildir á fjáraukalögum. Nýja fjárlagakerfið gerir ráð fyrir því í grunninn að það séu engin fjáraukalög heldur séu varasjóðir í stofnunum, sem eru misjafnir að stærð. Það er enn verið að reyna að byggja þá upp og þar eru ekki drjúgir sjóðir til að standa undir öllum þeim væntingum sem eftirlitsstofnanir, m.a. undir ráðuneyti mínu, gera sér væntingar um að fá. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að við erum á öllum stöðum með ósk um að bæta í eftirlit eða aðra starfsemi ríkisins. Það er eðlilegt sjónarmið og ég geri ekki lítið úr því. En ég minni hv. þingmann á að það er líka ýmislegt innan stofnana sem hér er rakið sem má betur fara. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru nefndir þættir sem við getum farið að vinda okkur í. Svo að það sé upplýst höfum við reynt að styðja þessa stofnun eftir föngum af því litla ráðstöfunarfé sem við höfum, en það dugar stutt.

Þegar spurt er hvort við ætlum að bíða í hálft ár eftir því að grípa til aðgerða mun ég ekki gera neinar stórar breytingar á þessu verki innan fjárlagaársins, það er alveg augljóst. Það er miklu nær að taka þetta breiða, stóra, mikla samráð. Ég fullyrði að í nefndina er faglega skipað, eða reynt að gera það. Þó að menn hafi misjöfn sjónarmið til þeirra sem kunna að taka sæti í henni er reynt að skipa í hana með sem skilvirkustum og bestum hætti með það að augnamiði að menn nálgist umræðuna um skýrsluna, um stöðu eftirlitsins, út frá faglegum sjónarmiðum. (Forseti hringir.) Á grunni þeirrar vinnu hyggst ég grípa til einhverra viðbragða.