149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er að hugsa til þess að samkvæmt nýja fyrirkomulaginu er svigrúm þar sem ráðherra hefur ákveðna sjóði sem hann getur gripið til. Já, það koma alls konar sjónarmið fram um að meira fjármagn þurfi hér og þar en nú er þingið aftur á móti komið með skýrslu frá Ríkisendurskoðun um að eftirliti með fiskveiðiauðlindinni sé verulega ábótavant og ekki hægt að uppfylla lögin eins og þau eru. Þá hlýtur að vera krafa frá okkur að eitthvað sé gert í málinu strax. Og það er hægt að gera eitthvað strax. Ef ég væri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra myndi ég ég hugsa: Hvað get ég gert strax? Ég hef sjóði hérna, hvernig get ég brugðist við? Ég get ekki gert allt strax. Ég get ekki endurskipulagt stofnunina til þess að hún sé skilvirkari, ekki strax, það þarf að bíða eftir faglegra ferli sem ráðherra setur í gang. Það verður að bíða fram á haustið af því að það er ekki hægt að gera strax. En gæti ráðherra skoðað hvort hann sæi eitthvað sem væri hægt að gera strax fyrir þá sjóði sem hann hefur, til að færa sig nær því að stofnunin geti sinnt lögum, til að færa sig nær því að farið sé á sjálfbærari hátt með auðlindina okkar?