150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

vinna nefnda við stjórnarfrumvörp.

[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það verður líka að segjast eins og er að þingið er í viðbragðsstöðu vegna útbreiðslu veirunnar og ég vonast til að nefndinni gangi vel að fást við verkefnið við þær aðstæður sem við búum við í dag. Ég sé enga ástæðu til annars en að það geti tekist vel.

Stjórnkerfið mun styðja við þessa vinnu og svara spurningum eftir því sem við getum. Það er alveg ljóst að fjölmargir aðilar munu vilja hafa skoðun á þessum aðgerðum en fyrstu viðbrögð eru jákvæð, verð ég að segja. Mér finnst ég skynja jákvæð viðbrögð frá Samtökum iðnaðarins, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar. Það gefur vísbendingar um að okkur sé að takast að koma því út í samfélagið og koma því til skila að við tökum stöðuna mjög alvarlega og séum tilbúin að ganga mjög langt til að styðja við rekstur í landinu, slá skjóli (Forseti hringir.) yfir störfin og leggja þannig grunn að samstöðu um framhaldið.