151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að allt skólakerfið okkar sé án aðgreiningar og mikilvægt að hlúa sérstaklega að fyrsta lögbundna skólastiginu, grunnskólanum, því að þar eru mestu mótunarárin. Öll börn eiga rétt á menntun við hæfi og í nærumhverfi sínu þar sem það á við þannig að hver og einn geti komist til þroska. Til þess þarf fjölbreyttar aðferðir, viðfangsefni og aðstæður, og ég fullyrði að innan skólanna er af hálfu starfsfólks unnin gríðarlega góð vinna og leiðarljósið er að gera vel svo allir njóti sín. En það er líka mikilvægt að jafna aðgengi skóla að tækjabúnaði og styðja þannig við nám og starf í skólasamfélaginu, sem er í sífelldri þróun.

Skóli án aðgreiningar grundvallast á hugmyndafræði mannréttinda, samfélagslegrar þátttöku og lýðræðis. Sú hugmyndafræði er hluti af þeim samfélagslegu réttindum að tilheyra og vera metinn í því samfélagi sem einstaklingurinn er hluti af og þeim rétti að fá að vera þátttakandi í margbreytilegu samfélagi. Þetta sagði ég í sérstakri umræðu um sama efni árið 2014. Í skólakerfi sem byggir á þessari hugmyndafræði er mikilvægt að öllum sé mætt á þeirra grundvelli, hvort sem um er að ræða nemendur með hvers konar greiningar eða nemendur sem bera af í námi. Hvert barn á að styrkja í námi. Þannig er hægt að hafa í sama bekknum barn með ADHD, barn með fötlun og svo afreksnemanda, auk hóps af nemendum sem við getum kallað meðalnemendur. Lykillinn er að þörfum allra nemendanna sé mætt. Það er hægt að gera með ýmsum öðrum hætti en að aðgreina börn í skólum eða bekkjum eftir hæfni, eins og var gert mjög lengi. Það að aðgreina nemendur eftir hæfni getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmat nemenda, en það er líka mikilvægt að við munum að það er lykilatriði að styðja við afburðanemendur þannig að þeir meðtaki það sem þarf til að sinna náminu og njóti sín, t.d. svo að nemendur lendi ekki á vegg þegar þeir koma á framhalds- og háskólastig. Skóli án aðgreiningar þýðir ekki að ekki eigi að gera neinn greinarmun á þörfum og væntingum nemenda til náms heldur snýst hugmyndafræðin, og þar af leiðandi stefnan sem unnið er eftir, um að öll börn eigi jafnan rétt til náms.