151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Íslenska menntakerfið starfar eftir hugmyndafræðinni um menntun án aðgreiningar eða menntun fyrir alla. Eins og hv. þingmenn gera sér grein fyrir var sú stefna lögfest hér á landi og að mínu mati er hún vel framkvæmanleg. Það er mjög brýnt að við hlúum að öllum börnum og veitum jöfn tækifæri. Við vitum að við þurfum að fara í meiri stuðning fyrr í skólakerfinu og þess vegna hefur sú vinna sem við höfum verið að vinna síðustu misseri falist í að einblína á að grípa börnin fyrr og efla alla umgjörð í kringum kennara. Hvernig hefur okkur miðað áfram? Okkur hefur miðað býsna vel vegna þess að eitt af því sem við sjáum er að íslenskum börnum líður mjög vel í skólakerfinu. Það skilur okkur til að mynda að frá mörgum öðrum menntakerfum, að börnunum okkar líður vel. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að ef barni líður vel þá aukum við líkurnar á því að barnið finni sig og að það velji sér nám við hæfi og hafi sjálfstraust til þess. Þannig að ég tel að við séum á réttri leið þegar við segjum að við viljum menntun fyrir alla og við séum ekki með aðgreiningar hvað það varðar. Við þurfum hins vegar alltaf að hafa möguleikann á því að leita að þeirri sérkennslu sem er við hæfi og hlúa endalaust að menntakerfinu vegna þess að það er þannig að þeim þjóðum sem fjárfesta í menntun mun vegna betur. Ég held líka að á þessum Covid-tímum sé það besta sem við gerum að fjárfesta í menntakerfinu.