152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[16:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Það er, virðulegur forseti, ákveðin framtíðarumræða sem við þurfum að taka hér í þessum góða sal. Ég vil geta þess að ég styð í grunninn þetta mál, áskil mér að gera það með öllum fyrirvörum, en ég tel mikilvægt að við klárum það því að þetta er, eins og Samtök atvinnulífsins og ASÍ segja, tímabær áfangi í framkvæmd og efndum á yfirlýsingum stjórnvalda. Ég held því að það sé mikilvægt að þingið geri sitt til að þær verði að veruleika.

Hitt er síðan að ég mun, ef ég fæ færi til hér á eftir í ræðu, fara yfir ótengda þætti en samt tengda og það er náttúrlega vinnumarkaðsmódelið sem við þurfum að breyta. Ég efast ekki um að við séum svolítið sammála hvað það varðar. Þess vegna er mikilvægt þegar við sjáum svona sameiginlega yfirlýsingu frá ASÍ og SA að skora líka svolítið á aðila vinnumarkaðarins að fara lengra, bæði með stjórnvöldum og öðrum til þess að búa þannig um hnútana að við getum búið til og tryggt stöðugleika til lengri tíma. En það verður ekki öðruvísi (Forseti hringir.) en að við tryggjum hér nýja nálgun þegar kemur að samningum (Forseti hringir.) um laun og kjör á íslenskum vinnumarkaði.