152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[16:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að það væri mjög vel til fundið að sem bestar upplýsingar yrðu teknar saman og það ætti nú að vera hægt að taka, hvað eigum við að segja, skólabókardæmi um þá sem almennt myndu njóta góðs af því að velja tilgreinda séreign og síðan á móti svona dæmigerðan lífeyrisþega eða launþega sem ætti ekki vísan jafn mikinn ávinning af þessu úrræði. Mér sýnist að það sé nú viðleitni hjá lífeyrissjóðakerfinu að beina fólki inn á þessar ólíku brautir eins og þessar ólíku ávöxtunarbrautir fyrir séreignarsparnaðinn eftir því hvar þú ert staddur á æviskeiðinu. Þær eru mjög mismunandi. Og já, ég held að það hvíli talsvert mikil skylda á lífeyrissjóðunum að gera aðgengilegar góðar upplýsingar um þetta.