152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[16:49]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé ekki betur í fljótu bragði en að hér hafi verið gerðar endurbætur á milli þinga á frumvarpinu sem leyfir tilgreinda séreign sem séu til bóta. Þar er auðvitað fyrst að nefna að það er núna heimilt að veita þessa þjónustu en ekki skylda og það held ég að skipti mjög miklu máli. Ég vil þó vekja athygli þingheims á því að það er verið að lækka lágmarkstryggingavernd. Hún skiptir máli þegar litið er á heildarævitekjur fólks og sérstaklega muninn á milli kvenna og karla á vinnumarkaði.

En ég kem hér upp til að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvernig honum finnist þetta frumvarp, ef að lögum verður, samræmast því markmiði aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til skamms tíma, að einfalda lífeyriskerfið og samræma réttindi á milli markaða og hvernig það gangi upp með þessum breytingum.