152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[16:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Já, þetta eru stór kerfi, frú forseti, og það tekur tíma að breyta þeim. En það þarf líka að vanda sig við það. Ég hygg að við þurfum á hinu háa Alþingi að hafa áhyggjur af því að það sé verið að draga úr vægi sameignar í lífeyriskerfinu almennt. Ég hef sjálf mjög miklar áhyggjur af því tekjubili, þeim launamun sem er á milli karla og kvenna á vinnumarkaði og hvernig hann fylgir að sjálfsögðu kynjunum, fólki, ég segi ekki út yfir gröf og dauða en alla vega inn í eftirlaunaaldurinn og mér finnst fátt í þessu frumvarpi benda til þess að við getum einhvern veginn undið ofan af því flækjustigi sem hér er komið á. Ég vil brýna hæstv. ráðherra að efna til pólitísks samtals, við aðilana að sjálfsögðu, um hvaða markmiðum við viljum ná af því að við tölum um að ná hlutfalli meðalævitekna sem eftirlaun og annað, en svo vitum við líka að mismununin í kerfinu er orðin svo mikil að stórefnað fólk, eldra fólk, er að taka stórar upphæðir út úr kerfi sem nýtist því best og miklu betur en yngri kynslóðum þessa lands.