152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[18:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þetta. Ég er alveg sammála. Það er líka annar flötur á þessu. Það mátti taka þetta út út af Covid og þú borgaðir fullan skatt af þessu. Það var kannski svolítið skrýtið. En sjáum t.d. núna hvernig staðan er hjá mörgu fólki í dag og allt hækkar. Þeir sem eru með óverðtryggð lán, 30 millj. kr. lán, það hækkar um 20.000 kr. á mánuði bara út af vaxtahækkun Seðlabankans. Svo eru einhverjir inni í kerfinu núna að borga svona en hafa ekki verið að kaupa sína fyrstu íbúð heldur kannski verið að kaupa aðra íbúð eða jafnvel lent í því að vera á leigumarkaðnum í einhver ár og eru svo að kaupa aftur. Af hverju ekki að leyfa þessum einstaklingum líka að nýta þetta? Þeir þurfa á þessum peningum núna að halda til að setja inn í þetta kerfi, og mætti nýta þá skattfrjálst til að taka t.d. á þessari hækkun núna, draga úr henni. Við verðum einhvern veginn að gera það. Eins og einn einstaklingur á leigumarkaðnum sagði við mig um daginn: Hvernig á hann að borga 17.000 kr. hækkun á leigu á mánuði og hann fær 5.000 kr. frá ríkinu til þess að standa undir því? Það vantar 12.000 kr. Þetta er spurning sem margir spyrja sig núna: Hvernig eigum við að brúa bilið vegna þess að afborgunin hækkar og hækkar en launin fylgja ekki með? Við gætum nýtt þetta kerfi í það og frekar að þetta væri þannig heldur en að fólk þyrfti að taka þetta út og borga hæstu skatta af, jafnvel 40% skatt af greiðslunum. Það held ég að sé svolítið sniðugt útspil hjá ríkisstjórninni að mörgu leyti til þess að ná inn skatttekjum.