153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Fólk má fetta fingur út í það að við köllum þetta farsa, en einhvers konar leikrit er það þegar fólk kemur hingað upp trekk í trekk og heldur því fram að ekki megi birta greinargerð sem forsætisnefnd var einhuga um fyrir ári að ætti að birta á grundvelli lögfræðiálits, sem forseti vildi reyndar ekki birta en úrskurðarnefnd upplýsingamála komst að þeirri niðurstöðu að ætti að birta. Lögfræðiálitið um að við eigum að birta þetta, að við eigum að birta þessa greinargerð setts ríkisendurskoðanda, er öllum aðgengilegt, frekar auðlæsilegt þó að það sé nokkuð langt. Þar stendur það bara. Þar stendur það, forseti, þar stendur það, hv. þm. Hildur Sverrisdóttir. Það má alveg birta þetta. Það á að birta þetta. Forseti vill ekki birta það og fær meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með sér í einhvers konar leikþátt — ég er nú ekki nógu sjóaður í fræðunum til að vita hvort það heitir farsi eða ekki — einhvers konar leikþátt til að kasta ryki í augun á fólki til þess (Forseti hringir.) að láta fólk halda að það sé verið að rannsaka mál sem ekki verður rannsakað til hlítar nema þetta skjal verði opinberað eins og forsætisnefnd ákvað fyrir ári að gera.