153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra breytir nákvæmlega engu um það verkefni sem heimurinn og Ísland stendur frammi fyrir varðandi fólk á flótta. Þá eru í breytingartillögum meiri hlutans engar raunverulegar breytingar á gildandi rétti heldur árétting á þegar lögfestum reglum og framkvæmd stjórnvalda. Almenn umfjöllun í nefndaráliti meiri hlutans hefur enga raunverulega þýðingu, þvert á það sem stjórnarliðar fullyrða, því gegn lagatexta um niðurfellingu réttinda verða orð sem ganga þvert gegn laganna hljóðan ekki að lögskýringargagni heldur tilraun til að blekkja þá sem á hlusta. Hvítþvottur Vinstri grænna og Framsóknar er einungis ætlað að bjarga andliti þeirra þingmanna sem segjast aðhyllast mannúðlega stefnu í málefnum flóttafólks en vinna svo gegn því á þingi. Það sem gerst hefur er að löggjafarvaldið hefur tapað fyrir lífslokameðferð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur en þau sem raunverulega tapa (Forseti hringir.) í þeim skollaleik er fólk í viðkvæmustu stöðunni í leit að vernd hér á landi.