153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:04]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er mikill sorgardagur og ekki bara sorgardagur, þetta er skammardagur fyrir Alþingi Íslendinga. Hæstv. dómsmálaráðherra fer hér mikinn um þann fjölda sem sækir hingað. Þetta frumvarp mun ekki breyta neinu um það, engu um það, ekki að ég sé á meðal þeirra sem telja það endilega vera vandamál. Hæstv. dómsmálaráðherra talaði um góða og vandaða vinnu. Það sem er að gerast hér er að það hefur tekið Sjálfstæðisflokkinn fimm ár að koma þessari stefnuyfirlýsingu í lög, stefnuyfirlýsingu sem segir, líkt og nefnt var áðan: Flóttafólk er ekki velkomið. Þetta er yfirlýsing um það að flóttafólk sé upp til hópa tortryggilegt. Þetta lýsir andúð í garð þessara hópa. Hv. þm. Jódís Skúladóttir segir „svo breytt“, hún styðji þetta mál svo breytt, hefði ekki stutt það í upphafi þings. Þetta mál er ekkert breytt. Það er ekkert breytt. Þar sem er búið að breyta í þessu máli er að það er búið að árétta hluti sem eru þar fyrir. (Forseti hringir.) Það hefur ekki verið brugðist við neinni þeirra umsagna sem bárust þar sem bent var á mannréttindabrot og annað. (Forseti hringir.) Það hefur ekki farið fram mat á því hvort þetta standist stjórnarskrá, ólíklegt að það geri það. Þetta er sorgardagur.