153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. 2. gr. þessa frumvarps fjallar um það að þeir sem hafa fengið synjun frá Útlendingastofnun á grundvelli 36. gr., þ.e. þeir sem eru með vernd annars staðar og Dyflinnarmálin svokölluðu, hljóti sjálfkrafa kæru. Ég held að yfir 90% af þessum málum séu í dag kærð til kærunefndarinnar þannig að já, þetta eykur skilvirkni. Við ræddum mikið um það hvort þetta væri með einhverjum hætti að skerða rétt umsækjenda vegna þess að uppi voru áhyggjur um að greinargerðarfresturinn væri ekki nægjanlegur. Eftir fund með kærunefndinni þá er alveg ljóst að kærunefndin veitir viðbótarfresti. Meiri hlutinn telur þess vegna að þessi breyting skerði ekki rétt umsækjenda til að leita réttar síns og bendir á að kærunefnd útlendingamála veitir viðbótarfrest til að skila greinargerð þegar þörf er á og óskað er eftir því. Nánar er mælt fyrir um viðbótarfresti í verklagsreglum kærunefndar. Það er því engin ástæða til að óttast að þetta brjóti á mannréttindum fólks og þetta er ein af greinunum sem eykur skilvirknina í kerfinu okkar.