153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að endurteknum umsóknum verði að jafnaði vísað frá vegna þess að það er óeðlilegt að hægt sé að leggja fram sömu umsóknina aftur og aftur með tilheyrandi kostnaði, tíma og fyrirhöfn. En, þetta er að jafnaði. Ef nýjar upplýsingar liggja fyrir í málinu sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur eru á því að fallist verði á fyrri umsókn, þá er að sjálfsögðu hægt að taka málið fyrir aftur. Ákvæðinu er því ætlað að samræma málsmeðferð vegna endurtekinna umsókna til þess að koma í veg fyrir tilefnislausar endurteknar umsóknir, auka skilvirkni í kerfinu og tryggja réttaröryggi umsækjenda. Og jú, þetta er í samræmi við reglugerð frá Evrópusambandinu.