153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:38]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Hér erum við að gera heiðarlega tilraun til að leiðrétta klúðurslegt orðalag í frumvarpinu sem hér á að samþykkja, sem að mínu mati er eitt af mörgum ákvæðum þessa frumvarps sem ber vott um það hversu slæm vinnubrögð hafa verið viðhöfð við vinnslu þessa máls, og þótt komið hafi fullt af umsögnum og gestum var ekki hlustað á það. Í ákvæðinu segir, með leyfi forseta:

„Endurtekinni umsókn skal vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur eru á því að fallist verði á fyrri umsókn hans skv. 24. gr.“

Hér leggjum við til að orðið „fyrri“ verði fellt brott vegna þess að ég held að það sé þarna fyrir mistök. Ég spurði ráðuneytið út í þetta og skýringarnar sem við fengum frá ráðuneytinu léttu ekki þessum áhyggjum af mér. Þetta þýðir það í rauninni, ef maður les ákvæðið, að ef nýjar aðstæður skapast, t.d. ef stríð brýst út í heimalandi viðkomandi og hann þarf að leggja fram umsókn á allt öðrum forsendum, þá er engin heimild í lögum til að taka hana til meðferðar. (Forseti hringir.) Þetta eru mistök í lagasetningunni. Ég hvet ykkur öll til að segja já við þessari breytingu.