153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:39]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Við erum enn að ræða 7. gr. frumvarpsins sem fjallar um að svipta flóttafólk sjálfsögðum rétti samkvæmt stjórnsýslulögum til að fá mál endurupptekið ef ný gögn eða nýjar ástæður gefa tilefni til. Það sem mig langar til að benda hv. þingmönnum á er það að með því að skapa slíka undantekningu frá grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins — sem eru nákvæmlega það, grundvallarreglur — erum við að skapa mjög alvarlegt fordæmi. Það mun ekki bara hafa áhrif á réttindi flóttafólks. Það hefur áhrif á réttindi allra vegna þess að réttindi okkar eru í grunninn öll þau sömu. Ég vil bara benda þingmönnum á það að með því að samþykkja 7. gr. eins og hún er í þessu frumvarpi erum við að setja mjög hættulegt og vont fordæmi fyrir okkar stjórnsýslu. Það er meira að segja óvíst hvernig það verður túlkað í framkvæmd vegna þess að í raun eiga stjórnsýslulög að ganga framar ákvæðum af þessu tagi. Það er bara verið að flækja stjórnsýsluna. Það er verið að búa til vandamál til að leysa vandamál sem er ekki fyrir hendi. Ég segi já við þessari tillögu um að fella þetta ákvæði brott og hvet ykkur öll til að gera slíkt hið sama.