153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:00]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Hér er lagt til að 6. gr. frumvarpsins verði felld brott. Þess vegna munum við sem erum á móti henni segja já í þessum þingsal, kannski til að skýra fyrir áheyrendum hvað það hljómar ankannalega. Þetta ákvæði er mjög einkennandi fyrir þetta frumvarp að mörgu leyti, ekki síst vegna þess að það er illa ígrundað. Það er ekki í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannaríkjunum. Það er ekkert annað ríki sem gerir það sem er verið að gera með þessu ákvæði, sama hversu oft því er haldið fram af hálfu þingmanna meiri hlutans. Og það er algerlega óúthugsað. Við spurðum ráðuneytið: Hvað ef fólk fer ekki þrátt fyrir að vera svipt þjónustu með þessum hætti, hvað ef það fer ekki? Svarið var: Þau eiga bara að fara. En hvað ef þau fara ekki? Það er ekki búið að meta hvaða afleiðingar þetta mun hafa fyrir samfélagið. Það er ekki einu sinni á hreinu hver nákvæmlega þjónustusviptingin er. Þetta ákvæði er nákvæmlega eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á hérna rétt áðan, eins og allt þetta frumvarp, ekkert annað en lögfesting á ómannúðlegri framkvæmd Útlendingastofnunar sem hefur ýmist verið dæmd eða úrskurðuð ólögmæt. (Forseti hringir.) Það er það sem er verið að gera hér. Það er verið að senda skilaboð. Þetta snýst ekki um skilvirkni og ekki um að samræma löggjöfina við löggjöf annarra ríkja. Ég segi já við því að fella þetta brott.