153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er á ferðinni meint skilvirknisákvæði þar sem látið er líta út fyrir að við þessa aðgerð, að henda fólki út úr allri þjónustu og út á götu, út úr heilbrigðisþjónustu og velferðarþjónustu, muni þeir sem geta ekki farið fara, þrátt fyrir að vera ekki með nein ferðaskilríki eða eiga ekki möguleika (Gripið fram í.)eða eiga möguleika á dauðarefsingu í heimalandi þá muni þeir bara fara. Í atkvæðagreiðslu hér í febrúar eftir 2. umr. kom hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og sagði að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þessu af því að sveitarfélögin myndu grípa þetta fólk. Það væri skilningur ráðuneytisins og það væri skilningur þeirra sem ætluðu að samþykkja þetta hér. Í 3. umr. komu fulltrúar sömu ríkisstjórnar hingað og sögðu að þetta væri einhver misskilningur, þetta væri gert til þess að moka fólkinu út, (Forseti hringir.) það yrði ekki þannig. Við vitum alveg að það að fá þjónustu sveitarfélaga (Forseti hringir.) samkvæmt 15. gr. sveitarstjórnarlaga er ekki svona einfalt. Hæstv. ráðherra veit það auðvitað (Forseti hringir.) og líklega er þetta enn ein tilraun Vinstri grænna til að afvegaleiða umræðuna. Ég segi já.