153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Það ákvæði sem hér er lagt til að verði fellt brott úr frumvarpinu er í samfloti við 7. gr. og a-lið 1. gr. sem lúta að því að svipta fólk réttinum til að fá endurupptöku máls síns og í staðinn er það ranglega stimplað sem einhvers konar endurtekin umsókn. Með þessu ákvæði sem við erum að leggja til að verði fellt brott, er lagt í hendurnar á formanni kærunefndar útlendingamála einum að afgreiða það. Af greinargerð með frumvarpinu er ljóst að tilgangurinn með þessum ákvæðum er að geta neitað fólki um endurupptöku auðveldar og hraðar, með minni rökstuðningi og minni skoðun á þeim ástæðum sem lagðar eru fram og þeim gögnum sem bætt er við. Þetta er slæm þróun. Ég segi já við því að fella þetta brott.