153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Aðeins um hvað við meinum þegar við segjum að nú eigi að gefa Útlendingastofnun heimild til að senda fólk bara eitthvert sem þeim finnst að viðkomandi eigi að fara. Ég vil vísa í umsögn Rauða krossins á Íslandi þar sem kemur mjög skýrt fram að hér eru gerðar minni kröfur til mats stjórnvalda, upplýsingaöflunar og gagnagreiningar á því hvort það eigi að senda viðkomandi til ríkis sem viðkomandi hefur aldrei komið í, hefur ekki dvalarleyfi í. Það er það sem við meinum með „eitthvert“. Viðkomandi hefur ekki dvalarleyfi þar og hefur aldrei komið þangað og þetta er annað ríki en þar sem viðkomandi er með ríkisborgararétt. Það eru lægri skilyrði fyrir því að stjórnvöld meti hvort það sé hægt að senda fólk bara eitthvert í þessu ákvæði heldur en þegar Útlendingastofnun er að meta hvort flóttamaður hafi möguleika á því að setjast að einhvers staðar annars staðar en innan síns eigin upprunaríkis, segjum flóttamaður frá Úkraínu eins og var mikið um þegar innrásin var eiginlega skorðuð við Krímskaga. (Forseti hringir.) Þá er hægt að segja: Þið getið flutt til Kyiv, við erum búin að leggja fram mat á því hvernig aðstæður eru þar (Forseti hringir.) og getu þína til að setjast að í Kyiv o.s.frv. Það eru minni skilyrði gagnvart því að senda fólk til ríkis sem það hefur aldrei komið til, hefur ekki ríkisborgararétt í, hefur ekki rétt til dvalar í, heldur en þegar er verið að skoða hvort hægt sé að fara innan upprunaríkis.