153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:11]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Það kom skýrt og greinilega fram við meðferð málsins hjá allsherjar- og menntamálanefnd að þrátt fyrir að það sé þannig víðar í lagaumhverfi okkar og líka í þessum tiltekna málaflokki að það eigi að taka tillit til hagsmuna barna er framkvæmd málanna oft þannig að það er ekki gert. Það er eitthvað sem við þurfum að laga í framkvæmdinni miklu frekar en að setja inn ákvæði sem í raun og veru gerir ekkert annað en að staðfesta það sem þó átti að gera samkvæmt lögum en ekki var farið eftir.

Þetta er aftur tillaga til þess að bjarga andliti Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs og þetta er til komið vegna þess að það voru boðaðar breytingartillögur fyrir 3. umr. Það bólaði ekkert á þeim og það var ekki fyrr en hæstv. ráðherrar Vinstri grænna fóru að tala um það opinberlega að þingmenn ætluðu að setja inn einhverjar breytingartillögur við þetta mál að þessu var hent inn í skyndi. Þetta er fegrunaraðgerð, það er sjálfsagt að samþykkja þetta, en þetta er engin sérstök veigamikil efnisbreyting vegna þess að það er í framkvæmdinni sjálfri sem við þurfum að tryggja að hagsmunamat fari fram.