153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:31]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Þetta er dapur dagur og það er sömuleiðis dapurlegt að hæstv. dómsmálaráðherra skuli koma hér upp sigri hrósandi yfir því að hafa skert réttindi viðkvæms hóps á sama tíma og hann afflytur allt það sem gagnrýnt hefur verið við þetta mál. Þegar talað er um að þetta frumvarp breyti engu er verið að vísa í orð hæstv. dómsmálaráðherra þess efnis að hér ríki neyðarástand, hér sé stjórnleysi og ógn steðji að samfélaginu. Samt herðir þetta frumvarp bara á lífi örfárra einstaklinga. Við munum ekki standa hér eftir ár, hvað þá í allsherjar- og menntamálanefnd þegar hæstv. dómsmálaráðherra ætlar að flytja sína skýrslu, og velta fyrir okkur hversu hratt það gerðist eiginlega að hælisleitendum og flóttafólki fækkaði á Íslandi. Þetta frumvarp nær bara ofur einfaldlega ekki til þess. Það nær til lítils afmarkaðs hóps, (Forseti hringir.) verið er að þrengja réttindi þess hóps en það breytir litlu fyrir heildarsamhengi hlutanna. Það er verið að selja það úti í samfélaginu af hæstv. dómsmálaráðherra og stjórnarþingmönnum að verið sé að bregðast við einhverri ógn. Það er ekki verið að því. Ég segi nei.