153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég segi nei við þessu frumvarpi. Það sem er í raun og veru verið að gera hérna er að það er verið að lemja fólk til hlýðni. Það er verið að sparka því út á götuna til þess að vera einhvers konar viðvörunartákn fyrir alla sem myndu annars koma hingað, fólk sem ætti rétt á að koma af því að það er raunverulegir flóttamenn sem efast þá um að það verði tekið á móti þeim með opnum örmum hérna á Íslandi og leita þá eitthvert annað.

Þetta er ákveðið kapphlaup í að vera síðastur. Hvaða þjóð getur verið sú þjóð sem hleypur hægast þannig að flóttafólkið sem er alvöruflóttafólk fari þá til þeirrar þjóðar sem hleypur ekki síðast.

Hér er talað um stjórnleysi. Það er þessi ríkisstjórn sem er við stjórnleysisvöld. Stjórnleysið er þeim að kenna. Þeirra eigið stjórnleysi, er sagt. Þannig að ég hvet grasrót þessara flokka, ef einhver er eftir, til að spjalla aðeins við fulltrúa sína á næstu fundum og spyrja þau hvað hafi fengið í staðinn fyrir að samþykkja þetta frumvarp.