132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:09]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar er auðvitað rétt að vekja athygli á því að til þessa fundar í dag og væntanlega annarra funda sem ekki voru inni á starfsáætluninni er einmitt boðað til þess að gefa hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þannig að eitthvað er hann að snúa málinu á hvolf ef hann heldur að af hálfu forustu þingsins annars vegar eða stjórnarmeirihlutans hins vegar sé með einhverjum hætti verið að koma í veg fyrir að stjórnarandstaðan komi þeim á framfæri. Það er einmitt verið að bregðast við því að stjórnarandstæðingum er mikið mál að tala í þessu máli með því að efna til funda að kvöldi til á þessum föstudegi, á morgun og hugsanlega aukafunda í næstu viku. Það er verið að skapa svigrúm þannig að stjórnarandstaðan geti talað hér og komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Það sem menn eiga hins vegar við er það að það er ekki í anda lýðræðis að stjórnarandstaða geti með málþófi komið í veg fyrir að mál sem lögð eru fram af hálfu stjórnarmeirihlutans á Alþingi fái hér framgang. Það liggur fyrir í þessu máli að þetta frumvarp nýtur stuðnings ríkisstjórnarflokkanna og þar af leiðandi meiri hluta hér á þingi. Það liggur fyrir, það er vitað fyrir fram hvernig atkvæðagreiðslan muni fara ef að líkum lætur. (MÁ: … ræða málin?) Stjórnarandstaðan hins vegar… Auðvitað, hv. þm. Mörður Árnason spyr hvort það eigi ekki að ræða málin. Auðvitað á að ræða málin, það er verið að ræða málin og auðvitað tökumst við á um mismunandi sjónarmið í þessum efnum. Til þess eru þessar umræður, til þess er verið að boða aukafundi þannig að menn hafi tíma til þessa. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður bendir á að ég hafi ekki talað. Það hefur verið erfitt að komast að á mælendaskrá í þessu máli í ljósi þess að hér hafa þingmenn komið upp og haldið fimm klukkutíma ræður, þriggja klukkutíma ræður, fjögurra klukkutíma ræður, (Gripið fram í.) þannig að það hefur verið harla erfitt fyrir aðra en helstu talsmenn stjórnarandstöðunnar í þessu máli að komast að. Hins vegar getur vel verið að ég komi á mælendaskrá í næstu viku þegar þetta mál verður enn til umræðu.

Aðalatriðið er þetta: Menn fá að sjálfsögðu tækifæri til að skiptast málefnalega á sjónarmiðum í þessum efnum. Það liggur fyrir, til þess er verið að boða til aukafunda. Það er hins vegar ekki ásættanlegt fyrir þingmenn stjórnarmeirihlutans að una því að með málþófi sé hægt að koma í veg fyrir að mál sem þeir ætla sér að klára verði klárað. Það er einfaldlega ekki lýðræðislegt. Það er ekki lýðræðislegt þegar umræðurnar eru komnar út fyrir eðlileg mörk, þegar markmið umræðnanna er ekki lengur að koma málefnalegum sjónarmiðum á framfæri, heldur bara tefja fyrir, að það ráði lyktum í svona máli.