132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[12:22]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúna til þess að koma hér upp eftir ummæli hv. þm. Magnúsar Stefánssonar áðan. Ég ítreka það sem ég sagði í athugasemd minni fyrr í dag: Ég furða mig á því að hæstv. iðnaðarráðherra skuli hér í ræðustóli Alþingis firra sig ábyrgð á vatnatilskipun Evrópusambandsins. Þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók það mál upp hér í morgun um störf þingsins, að það þyrfti að ræða vatnatilskipunina og lögleiðingu hennar í íslenska löggjöf samhliða þessu máli hér, var hæstv. umhverfisráðherra ekki í húsi. Hæstv. iðnaðarráðherra kemur mjög svo að þessu máli og ætla ég að fara yfir það aftur. Það er greinilega þörf á því vegna þess að hv. þm. Magnús Stefánsson virðist ekki hafa náð því hver aðkoma iðnaðarráðherra er að lögleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins í íslensk lög. Hann virðist ekki hafa náð því að hæstv. iðnaðarráðherra og iðnaðarráðuneytið koma mikið að því máli.

Ég ætla því að fara yfir það aftur að í þessum texta, í greinargerð með frumvarpi til vatnalega, er sagt skýrt að beðið sé eftir samningi, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson greindi frá að væri nú kominn, milli ríkjanna Noregs, Íslands og Liechtensteins. Kveðið er á um þennan samning hér, þ.e. að á honum sé von, í þessari greinargerð með frumvarpi iðnaðarráðherra.

Þar segir, virðulegi forseti, skýrt og skorinort, með leyfi forseta:

„Þannig þarf að leiða í lög hér á landi stjórn vatnsverndar og liggur þegar fyrir í drögum frumvarp þess efnis sem unnið var á vegum starfshóps umhverfisráðuneytisins sem starfar að lögleiðingu áðurnefndrar tilskipunar og í eiga sæti“ — og ég vona að hv. þm. Magnús Stefánsson hlusti núna — „fulltrúar umhverfisráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Sú löggjöf mun falla undir umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun en tryggt verður náið samráð við iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun.“

Virðulegi forseti. Skýrara verður það ekki og því er það mín skoðun að hæstv. forseti hefði átt að kalla eftir því að hæstv. ráðherra iðnaðarmála, Valgerður Sverrisdóttir, svaraði þessari spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Sú spurning skiptir máli og hún tengist þessu máli klárlega. Því getur hæstv. iðnaðarráðherra ekki staðið hér í ræðustóli þingsins og firrt sig ábyrgð á málinu. Slík vinnubrögð ganga ekki upp og við þingmenn, og forseti fyrir okkar hönd, hljótum að krefjast þess að þessu máli verði svarað áður en umræðan heldur áfram. Því var ekkert óeðlilegt við að þeirri fyrirspurn (Forseti hringir.) væri beint til iðnaðarráðherra.