136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:46]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Síðan þetta mál kom upp hef ég furðað mig á því hvað fór á milli Gordons Browns, Alistairs Darlings, Geirs H. Haarde og Árna Mathiesens. Mér finnst þrátt fyrir allt, þrátt fyrir það sem búið er að segja, að ekki sé allt nákvæmlega komið fram sem þeim fór á milli. Mér finnst að þegar bankahrunið varð hafi fyrrverandi ríkisstjórn hreinlega farið á límingunum og misst allt niður um sig.

Af hverju var sendiherra Íslands ekki kallaður heim? Af hverju var sendiherra Breta ekki sendur heim með frímerki á rassinum? Af hverju — og þá langar mig að vitna í orð virðulegs þingmanns Atla Gíslasonar — var þetta ekki rannsakað sem sakamál? Það er öruggt í þessu dæmi öllu að það er saknæmt í gangi eða hefur verið.

Hvað er það sem við vitum ekki og þjóðin er ekki uppfrædd um í þessu máli? Voru miklir fjárflutningar á milli landa? Ég tel það fullvíst, ég get ekki sannað það úr þessum ræðustól en tel það fullvíst. Hvaða upplýsingar eru það sem Seðlabankinn situr á og neitar okkur um? Við skulum ekki gleyma því að hagur fólksins í landinu er í húfi. Þingheimur verður að vera í jarðsambandi við almenning og skilja og hlusta á í hverju þjóðin krefst svara í þessu máli, sem og öðrum.

Ég fullvissa þingheim um að íslenskur almenningur hefur ekki kallað þessar skuldir yfir sig, svo mikið er víst.