136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:36]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef svolítið á tilfinningunni að hv. þm. Jón Magnússon sé að verja úrelta stjórnarskrá hér. (Gripið fram í: Nei, ...) Það er ljóst að hún er úrelt eins og ég færði rök fyrir áðan. Það er ekki verið að tala um að breyta litlum sætum hlutum. Það er ekki svoleiðis. Það er verið að tala um að breyta mjög mikilvægum hlutum. Ég tilgreindi fimmtán atriði sem hægt er að skoða á blaðsíðu 6 í frumvarpinu.

Mörg þeirra atriða eru grundvallaratriði um þrígreiningu valdsins. Ljóst er að á Norðurlöndunum hafa menn breytt stjórnarskrám sínum. Danir sem gáfu okkur stjórnarskrána sem við búum við, meira eða minna óbreytta, — henni hefur verið ótrúlega lítið breytt — hafa breytt sinni stjórnarskrá og hún endurspeglar lýðræðislegri stjórnarhætti heldur en eru hér.

Virðulegi forseti. Við verðum að fara í gegnum þessa vinnu. Ég ítreka að þetta væri langbesta leiðin. Stjórnlagaþing sem tæki alla stjórnarskrána til endurskoðunar frá grunni þannig (Forseti hringir.) að við gætum fengið nýja og betri stjórnarhætti sem fyrst.