136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einmitt það sem við höfum verið að gera hérna síðustu 50 ár. Við höfum verið að tala fram og til baka um stjórnarskrána en nánast ekkert hefur gerst og það veit hv. þingmaður mætavel.

Ég verð að segja að hv. þm. Birgir Ármannsson finnur þessu máli allt til foráttu jafnvel þó að hann segi að hann telji hugmyndina ekki fráleita. Hann varar samt menn við. (BÁ: Vara við hraðanum.) Hvernig er staðan á Íslandi í dag? (BÁ: Vara við hraðanum.) Stjórnkerfi landsins er í molum. Það er staðreynd. Það er líka staðreynd að það er ekki bara Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn eða þær eftirlitsstofnanir, það er líka eftirlit eins hluta ríkisvaldsins með öðru sem hefur algjörlega brugðist. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Vill þingmaðurinn hafa óbreytt ástand þar sem Alþingi er nánast algjörlega valdalaust gagnvart framkvæmdarvaldinu? Er Sjálfstæðisflokkurinn að boða það í dag þegar hann finnur þessu máli allt til foráttu, ekki bara úr ræðustól Alþingis heldur líka í blaðagreinum?

Ég verð að segja alveg eins og er að auðvitað höfum við eins og aðrir þingmenn skoðanir á efnisatriðum stjórnarskrárinnar, að sjálfsögðu. En það er líka óeðlilegt að þingmenn séu sjálfir að setja sér starfsreglur og það er bara miklu eðlilegra, sanngjarnara og lýðræðislegra að við kjósum hóp manna, hóp sérfræðinga til þess að fara yfir þetta mál. Við getum svo rætt það að sjálfsögðu hvort þeir eigi að vera fleiri eða færri en 63 eða hvort þeir eigi að starfa lengur eða skemur en í sex mánuði. Það er ekki aðalatriðið.

Aðalatriðið er að stjórnlagaþingið verður að verða að veruleika.