139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

lausn á vanda sparisjóðanna.

[15:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil beina þremur spurningum til hæstv. fjármálaráðherra:

1. Hefur verið beitt sömu aðferðum hjá öllum sparisjóðum landsins við lausn á vanda þeirra, t.d. með aðkomu Seðlabanka Íslands í staðinn fyrir að beita þeim lögum sem sett voru?

2. Sparisjóður Þórshafnar, sem hæstv. ráðherra þekkir út í hörgul, hefur átt í vanda. Hvernig var sá vandi leystur og hvernig tengist sá sparisjóður Sögu Capital eigna- og skuldaböndum? Saga Capital skuldaði sparisjóðnum umtalsverða fjármuni.

3. Tengist lausn hæstv. fjármálaráðherra á vanda Sögu Capital, sem ræddur var á þingfundi 31. mars 2009, þessum tengslum Sögu Capital við Sparisjóð Þórshafnar og þá sérstaklega þeirri verulegu skuld Sögu Capital við Sparisjóð Þórshafnar?