139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

lausn á vanda sparisjóðanna.

[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Svarið er í raun og veru já. Sömu aðferðum hefur verið beitt við úrvinnslu mála allra þeirra sparisjóða sem þurftu á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda og reyndar líka samskiptin við hina sem áttu þess kost að gera upp kröfur sínar með nokkrum afslætti. Þeir þrír sparisjóðir sem ekki þurftu beinlínis á auknu eigin fé eða stofnfé að halda gerðu upp sín mál við Seðlabankann með þeim hætti.

Seðlabankinn hefur alfarið haft með höndum fjárhagslega endurskipulagningu þeirra sparisjóða sem voru að hluta til endurfjármagnaðir með kröfum sem breytt var í stofnfé. Það gildir sömuleiðis um Sparisjóð Þórshafnar og hv. þingmanni til hugarhægðar er ég ekki stofnfjáreigandi þar þó að hann sé vissulega í minni heimabyggð. Fljótlega eftir að ég gerðist fjármálaráðherra lét ég af höndum stofnfjárbréf mitt í Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis til að fyrirbyggja að uppi yrðu ásakanir um hagsmunaárekstra og vona ég að hv. þingmanni létti stórlega við það.

Sama gildir um samskipti Sögu Capital og sparisjóðanna. Úr þeirra málum var unnið algerlega sjálfstætt og óháð öðru. Fjármálafyrirtækjunum þremur sem ríkið hafði eignast miklar kröfur í vegna milliliðshlutverks þeirra í viðskiptum, bankanna og Seðlabankans, var gefinn kostur á að breyta kröfunum í lán á hagstæðum kjörum ef það mætti verða til þess að þau réðu við fjárhagslega endurskipulagningu sína. Það virðist ætla að takast, a.m.k. í einu tilvikinu, og fær þá ríkið fé sitt til baka. Það hefur engin áhrif á stöðu ríkisins sem kröfuhafa, veikir ekki eða rýrir stöðu þess á nokkurn hátt og engin einasta ný króna (Forseti hringir.) var reidd af hendi þannig að ég held að þeir sem kynna sér þau mál og átta sig á staðreyndunum eins og þær liggja fyrir sjái að þar var verið að gæta hagsmuna ríkisins (Forseti hringir.) eins og best var á kosið í því tilviki eins og öðrum.