139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[15:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. fjármálaráðherra áðan virðast einhvern veginn ekki vera nein takmörk fyrir því hversu miklum vonbrigðum maður getur orðið fyrir með einn hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni eins og hæstv. fjármálaráðherra. Eldsneytisverð hækkar og hækkar á Íslandi, ríkið tekur til sín langstærstan hluta af verði hvers bensínlítra (Gripið fram í: Já.) og hæstv. ráðherra svarar fyrirspurnum um það hvað hann ætli að gera með því einu að hann hyggist setja málið í nefnd. Í því felast vonbrigðin. Það eru vonbrigði að í hvert einasta skipti sem upp koma mikilvæg mál sem varða venjulegt fólk í landinu bregst hæstv. fjármálaráðherra aldrei röngum málstað.

Við skulum rifja það upp að þegar bensínlítrinn fór í 150 kr. var boðað til mótmæla á Íslandi. Ég lýsti því yfir fyrir ekki svo löngu að bensínverð nálgaðist hreina sturlun á Íslandi. Þá var bensínlítrinn kominn í 217 kr. og nú stefnir hann í 230 kr.

Í fáum löndum í heiminum innheimtir ríkið jafnháa skatta af bensíni og á Íslandi. Ég heyrði hæstv. fjármálaráðherra segja áðan að skatthlutfallið hefði verið miklu hærra árið 1999, þ.e. 72%. Ég ætla að vona að í því felist ekki einhver fyrirheit um það að hæstv. fjármálaráðherra telji sig eiga inni einhverja hækkun umfram það sem nú er. Ég held að menn verði að horfast í augu við það að venjulegt fólk í landinu getur ekki staðið undir þessum kostnaði. (Forseti hringir.) Fullt af fólki getur ekki verið án bíls og það verður (Forseti hringir.) að grípa til skattalækkana til að lækka eldsneytisverð í landinu. (Forseti hringir.) Þetta gengur ekki svona, hæstv. fjármálaráðherra.