141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er sjálfsagt að setjast yfir þessa hluti. Vandinn er sá að 2. umr. er komin af stað, hún er ekki langt komin, mikill fjöldi þingmanna er enn á mælendaskrá. Auðvitað gæti það verið einn leikur að gera hlé á umræðunni, vinna þetta mál áfram og halda svo áfram með 2. umr. ef það er vilji til. Það er alveg hægt að sjá slíkt fyrir sér. Það þyrfti þá ekki að gera neinar breytingar á þingsköpum eða neitt frávik þar frá. Aðalatriðið er að mínu mati það verkefni sem við okkur blasir, þ.e. að bregðast við áliti Feneyjanefndarinnar og svo allt hitt sem ég veit að við hv. þingmaður erum kannski ósammála um. Það er mín skoðun að enn þurfi að leggja mat á fjölmargar aðrar athugasemdir, meðal annars frá fræðimönnum, og finna þeim stað í nýju frumvarpi. (Forseti hringir.) Ég tel að vinnan sem fram undan er sé því miður of tímafrek til þess að verkið klárist á þessu þingi. Það er bara mitt einlæga mat, virðulegi forseti.