149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

sjúkratryggingar.

644. mál
[11:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða persónuverndarlög, sjúkraskrár eða upplýsingar sem varða Tryggingastofnun eða aðrar stofnanir sjúkratrygginga til þess að borga út lögskyldar bætur. Í hvert skipti sem ég sé setninguna um að orðin „að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda“ falli brott fæ ég hálfgerðan kuldahroll vegna þess að því miður þá hræða sporin. Það fer ekki á milli mála að það ömurlegasta sem einstaklingur getur lent í er að fá í hendur opinber gögn, hvort sem það er frá Tryggingastofnun ríkisins eða dómkvöddum matsmönnum vegna tryggingamála, og lesa í þeim upplýsingar um sjálfan sig sem hann vissi ekki um og gat ekki á nokkurn hátt vitað um.

Það sem er enn þá verra, eins og hv. þm. Halldóra Mogensen benti á, er að í frumvarpinu stendur að Sjúkratryggingastofnun beri að upplýsa aðila um fyrirhugaða upplýsingaöflun eins og hægt er hverju sinni. Því miður gæti þetta þýtt fyrir þann sem á rétt á bótum að hann verði sviptur bótunum vegna þess að það náðist ekki í hann. Það getur ekki verið til neitt ömurlegra. Þeir sem hafa verið í þeirri stöðu vita að það tekur langan tíma að komast inn í kerfið aftur.

Við erum með persónuverndarlög og Persónuvernd á að gæta þeirra. Ég veit ekki hvernig Persónuvernd á fara að því að standa undir hlutverki sínu þegar við höfum enn í dag upplýsingar frá dómstólum þar sem ekki er farið að persónuverndarlögum. Þeir eru enn að gefa upp viðkvæmar persónuupplýsingar, nafngreina fólk í dómskjölum. Það hlýtur að vera eitt það ömurlegasta sem hægt er að lenda í að vera í dómskjali. Þú ert vitni í máli og lest þar upp með nafni mjög viðkvæmar persónuupplýsingar og hefur ekki einu sinni hugmynd um það. Það finnst mér eiginlega verst af öllu.

Ég hef lesið og séð upplýsingar um aðila í dómskjölum sem eru sláandi en viðkomandi veit ekki einu sinni af því. Ég veit að ef hann vissi af því væri hann búinn að gera athugasemdir við það.

Okkur ber skylda til að sjá til þess að engar ákvarðanir séu teknar í málefnum sem varða persónuvernd án þess að viðkomandi sé upplýstur um það áður. Þess vegna segi ég fyrir mitt leyti að ég skil ekki tilganginn með því að fella brott orðin „að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi“. Sá sem um er að ræða hefur þá sótt um lífeyri eða annað hjá viðkomandi stofnun og þá hlýtur að vera einfaldast í dæminu ef stofnunin vill fá meiri upplýsingar frá honum að fá skriflegt samþykki hans fyrir því og upplýsa hann um það og láta fá afrit af því sem stofnunin á að fá. Þannig getur viðkomandi aðili alltaf varið sig og tékkað á því hvort upplýsingarnar séu réttar. Það er alveg á hreinu að til eru mörg dæmi, meira að segja í dómskjölum, um að reynt sé að blekkja og hreinlega falsa niðurstöður. Það er ömurlegt að þurfa að segja í ræðustól Alþingis að maður hafi orðið vitni að því að verið sé að falsa og segja rangt frá og búa til í sjúkraskrá.

Að slíkt skuli vera í gangi og það skuli vera hægt að nota í þeim tilgangi að valda fólki tjóni gerir það að verkum að við verðum að passa okkur í hvert einasta skipti sem við förum út í það að breyta einhverju sem varðar persónuverndarlög.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég mun fylgja málinu eftir í velferðarnefnd, þangað sem ég reikna með að málið fari. Ég mun gera þá kröfu að það sé alveg kristaltært að ef á að fella brott orðin „að fengnu skriflegu samþykki“ verði að tryggja að það sé ekkert gert gagnvart viðkomandi ef eitthvað er í gögnum í málunum án þess að hann sé upplýstur, þannig að hann geti varið sig áður en framkvæmd fer fram. Það er lágmarkskrafa vegna þess að það er ekkert ömurlegra en að fá í hendurnar eitthvað sem þú vissir ekki um þig og fara að tékka á því og komast svo að því að það var allt rangt, að settar voru inn rangar upplýsingar. Ef einstaklingur lendir í því að rangar upplýsingar um hann koma fram í einhverjum gögnum, upplýsingar sem eiga sér enga stoð í sjúkraskrá, þarf hann að fara af stað og biðja um aðgang að sjúkraskránni. Hann þarf að sýna skilríki, bíða í viku, sýna skilríki aftur og kvitta undir.

Á sama tíma eru einstaklingar þarna úti sem geta gert þetta allt án þess að kvitta fyrir eða biðja um eitt eða neitt eða yfir höfuð gera grein fyrir sér. Yfirleitt kemst reyndar upp um þá vegna þess að þeir þurfa að fara inn á ákveðnum kóða og IP-númer tölvunnar sýnir fram á hverjir þeir eru.

Svona hlutir eru ömurlegir og við verðum að koma í veg fyrir þá og tryggja að slíkt hætti nú þegar.