149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

taka gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður.

710. mál
[14:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég efast um að hugmyndir um fiskeldissjóðinn mæti ýtrustu kröfum, í það minnsta sem ég hef heyrt frá sveitarfélögum um hlutdeild þeirra í þessu gjaldi. Sveitarfélögin fá tekjur af fiskeldi á Íslandi, hafnarsjóðirnir sérstaklega, það eru fasteignagjöld af byggingum, útsvar af launum o.s.frv. Ég er með öðrum orðum að segja að ég tel að sú umræða eigi eftir að þroskast miklu meira, hvernig ætti að skipta gjaldinu á milli ríkis og sveitarfélaga sem innheimt yrði af þeirri starfsemi sem er undir í þessu máli.

Sveitarfélögin vilja eðlilega fá hlutdeild í tekjuöfluninni. Eins og ég hef sagt og sagði í fyrra andsvari er skynsamlegast að ræða þetta í stærra samhengi í tekju- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ef gjaldið á t.d. að fara til einhverra annarra þátta en sveitarfélögin hafa eðli málsins samkvæmt tekjustofna til að sinna, þá kallar það á umræðu í Jónsmessunefnd og í viðræðunefnd ríkis og sveitarfélaga um verkaskiptingu.