149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

taka gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður.

710. mál
[14:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og skil það sem svo að hér séum við einmitt að taka ákveðin skref og við þurfum að velta öðrum leiðum fyrir okkur en ekki kannski rasa um ráð fram í að komast að niðurstöðu.

Aðeins um þann hluta gjaldsins sem á að ganga til ríkisins til að standa undir rannsóknum, eftirlitskostnaði og stjórnsýslu. Væntanlega þarf ríkið að fjárfesta í rannsóknum nú þegar en sjóðurinn fer ekki að skila inn verulegum tekjum fyrr en að aðlögunartímanum liðnum og byggir náttúrlega á því að greininni gangi vel, þar skili sér tekjur. Verðum við ekki að gera ráð fyrir því að í fjárlögum og fjármálaáætlun sé ætlað sérstakt fjármagn til þessa verkefnis, í rannsóknir tengdar fiskeldi?