149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir þessa umræðu og sömuleiðis hæstv. umhverfisráðherra. Um helgina horfði ég á Silfrið þar sem rætt var við Guðna Elísson prófessor. Það sem kom þar fram var eiginlega sláandi og, með leyfi forseta, ætla ég að vitna orðrétt í það sem Guðni sagði:

„„Við erum að veðja á það að framtíðarkynslóðir dragi koltvísýringinn úr andrúmsloftinu og dæli honum niður í jörðina t.d. Það er að mínu mati marklaust að halda sig innan 1,5 gráðu markanna (hækkun á hitastigi jarðar), og nánast útilokað að ná 2 gráðu mörkunum.“ Staðan sé miklu verri en talað er um. „Ef við ætlum að halda okkur innan þeirra þurfum við að endurmóta hagkerfið og alla infrastrúktúra og þurfum að gera það mjög hratt.““

Síðan segir hann líka:

„Aukin velmegun, aukinn hagvöxtur, aukinn kaupmáttur. Allt í einu er aukinn kaupmáttur orðinn vesen því að allar vörur sem við getum keypt hafa kolefnisbindingu. Við þurfum einhvern veginn að snúa við þessum hugsunarhætti og það er flókið.“

Guðni tekur sjálfan sig og kollega sína sem dæmi og segir að fæstir þeirra hafi umbreytt lifnaðarháttum sínum.

Höfum við sjálf umbreytt okkar lifnaðarháttum að einhverju marki? Ég held því miður ekki. Guðni segir síðan orðrétt:

„Ef fram heldur sem horfir og 3–4 gráðu hækkun verður á hitastigi jarðar verða miklar breytingar og markar nánast endinn á þeim heimi sem við þekkjum í dag. Risastór svæði munu fara undir vatn, eyðimerkur myndast og gríðarlegir fólksflutningar. Þetta er ekki heimur sem við viljum fara í, við þurfum að berjast gegn þessu og leggja allt í það.“

En erum við orðin of sein? Það er spurningin: (Forseti hringir.) Erum við orðin allt of sein?