150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[13:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 sem er að finna á þskj. 1172. Með þessu frumvarpi eru lagðar fyrir Alþingi tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa málefnasviða og málaflokka vegna þeirra aðstæðna í efnahagslífinu sem eiga sér varla hliðstæðu á seinni tímum. Innihald frumvarpsins byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar hinn 10. mars 2020 um aðgerðir í sjö liðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins af völdum kórónuveirunnar. Hér er um að ræða nokkrar afmarkaðar breytingar á gildandi fjárlögum sem lúta að tilteknum hlutum mótvægisráðstafana stjórnvalda í tengslum við það áfall á efnahag landsins sem af faraldrinum hlýst. Frá því að ríkisstjórnin gaf yfirlýsingu á sínum tíma hafa hlutirnir þróast. Við höfum eftir því sem aðstæður hafa leyft tekið tillit til þess og gripið til nánari útfærslu á einstaka stefnumarkandi atriðum. Þetta frumvarp er lagt fram samhliða öðrum ráðstöfunum í ríkisfjármálum, annars vegar á sviði skattamála og hins vegar vegna ráðstafana sem varða greiðsluerfiðleika fyrirtækja. Það má gera ráð fyrir að þetta frumvarp verði hið fyrra af tveimur til fjáraukalaga fyrir árið 2020. Að öðru óbreyttu má ætla að hið síðara verði lagt fram á haustmánuðum venju samkvæmt, á 151. löggjafarþingi. Í því frumvarpi má gera ráð fyrir að afla þurfi frekari fjárheimilda, m.a. til að mæta auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs á yfirstandandi ári og öðrum kostnaði af völdum heimsfaraldurs sem ekki rúmast innan fjárheimilda almenns varasjóðs fjárlaga þegar kostnaðaráhrifin liggja betur fyrir.

Það er eðlilegt að spurt sé hvort ekki hafi verið tilefni til að koma með ráðstafanir vegna aukinna útgjalda sem augljóst er að verða, t.d. í heilbrigðiskerfinu, en við teljum á þessum tímapunkti að slík óvissa sé um umfangið að best fari á því að við fleytum því inn í fjárauka haustsins, auk þess sem við höfum varasjóðinn til að mæta einhverjum mismun.

Útbreiðsla kórónuveirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft víðtæk efnahags- og samfélagsleg áhrif. Því miður er við því að búast að þessi áhrif muni aukast á næstu vikum. Útlit er fyrir verulegan samdrátt í ferðaþjónustu, sumir segja algjört stopp, og við sjáum að hótel loka hvert á fætur öðru þessa dagana, auk þess sem einkaneysla og atvinnuvegafjárfesting mun dragast saman. Þá eru við slíkar aðstæður allar líkur á að atvinnuleysi aukist verulega á komandi vikum og mánuðum og það jafnvel þrátt fyrir hlutabótaleiðina sem við höfum lögfest. Efnahagsforsendur breytast því nær dag frá degi og nær ómögulegt er að spá fyrir um þróun hagstærða næstu misseri. Nú þegar er þó ljóst að víða munu hagkerfi dragast saman í ár, auk þess sem atburðir undanfarinna vikna hafa leitt til verulegrar lækkunar á eigna- og hrávörumörkuðum.

Íslenska þjóðarbúið er hins vegar vel í stakk búið til að takast á við áföll. Dregið hefur úr skuldsetningu fyrirtækja og heimila, auk þess sem gjaldmiðlamisvægi eigna og skulda er alls ekki fyrir hendi í sama mæli og áður átti við, t.d. í aðdraganda fjármálahrunsins, þ.e. falls bankanna. Þá var slíkt gjaldmiðlamisvægi sérstakt vandamál.

Loks er rétt að minnast á sterka stöðu ríkissjóðs. Við höfum greitt upp skuldir á undanförnum árum og höfum notið mikils vaxtar í landsframleiðslunni sem kemur sér vel núna. Þessu til viðbótar er eigin- og lausafjárstaða viðskiptabankanna sterk. Gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur aldrei verið stærri og erlendar eignir hagkerfisins eru meiri en skuldir. Erlend staða þjóðarbúsins er því sterk og hætta á gengishruni og hárri verðbólgu er lítil. Það er því ekki ástæða til að ætla annað á þessu stigi en að núverandi samdráttarskeið verði skammvinnt en menn geta haft ólíkar skoðanir á því hvað er skammur tími eða langur þegar jafn mikið áfall verður eins og við horfum upp á núna, jafn mikið tekjuhrun hjá mörgum. Þá skiptir hver dagur máli en við verðum að sætta okkur við það enn um sinn að töluverð óvissa er um það hversu hratt hagkerfi okkar og reyndar hagkerfi heimsins muni ná jafnvægi á ný.

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram er í þessu frumvarpi um að ræða tillögur um ný verkefni og auknar heimildir sem varða útgjaldamál sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga og teljast nú orðin brýn eða óhjákvæmileg. Í frumvarpinu er farið fram á að fjárheimildir ríkissjóðs á árinu 2020 verði auknar um 21,1 milljarð en það svarar til um 2% hækkunar á heildarfjárheimildum í gildandi fjárlögum. Umfang tillagnanna skýrist þó, eins og ég hef áður nefnt, af fáum en stórum útgjaldamálum.

Í 4. gr. frumvarpsins eru einnig lagðar til breytingar á heimildarákvæðum í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020.

Hér ætla ég að víkja nánar að meginefni frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra fái heimild til að veita framlög í sérstaka tímabundna flýtingu framkvæmda og fjárfestinga til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli og auka framleiðslugetu hagkerfisins til lengri tíma litið. Verklag okkar hefur verið það að skilyrði fyrir framlögum til slíkra verkefna, eins og við höfum undirbúið þessar tillögur sem munu koma fyrir þingið í sérstöku þingskjali í þingsályktunartillögu, þ.e. skilyrði fyrir því að verkefni rati á listann hjá okkur er að þau geti hafist eigi síðar en 1. september nk. og verði að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021. Þetta hefur verið þumalputtareglan í undirbúningi okkar að þessu fjárfestingarátaki, finna verkefni sem eru mannaflsfrek, eru arðbær og hægt að ráðast í strax.

Í öðru lagi er lagt til að veita ráðherra heimild til að auka hlutafé í opinberum félögum í því skyni að auka fjárfestingargetu þeirra á árinu 2020. Þetta skiptir líka máli og þetta spilar saman. Ég ætla ekki að úttala mig um þetta hér en það kann að vera að einstaka fyrirtæki, mögulega t.d. Isavia, komi að gagni að fá einhvers konar framlag ef menn vilja flýta eitthvað áformum. Það getur spilast þannig að það skipti máli að ríkissjóður styðji við fyrirtæki út af lánaskilmálum til að styrkja efnahaginn og tryggja að vilji menn ráðast í framkvæmdir sem voru fyrirhugaðar en geta skipt miklu máli, t.d. út af atvinnuástandinu á Suðurnesjum, að ráðast fyrr í framkvæmdir, viðhald og uppbyggingu á svæðinu, bæði vegna varanlegra rekstrarfjármuna sem þeir eru þarna með og nýbygginga sem fyrirhugað er að reisa. Þetta nefni ég bara sem stakt dæmi en þetta tvennt mun spila mjög vel saman. Við förum nánar ofan í fjárfestingarátakið þegar þingsályktunartillagan kemur fyrir þingið en við höfum reynt að vera með flóru af fjárfestingum sem munu gagnast samfélaginu öllu.

Í þriðja lagi er lagt til í þessu frumvarpi að ráðherra verði veitt heimild til gerðar samnings við Íslandsstofu um kynningar- og markaðsátak erlendis á árunum 2020–2021. Samninginn myndi ferðamálaráðherra gera en hér er um það að ræða að ætlunin er að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins á íslenska ferðaþjónustu. Ég ætla bara til gamans að geta þess að í morgun fékk ég sendingu í símann um slíkt átak sem Portúgalar eru þegar byrjaðir að dreifa þar sem er talað inn í þetta ástand, talað um mikilvægi þess að allir taki þátt í að hindra útbreiðsluna en minnt á það hvaða tækifæri liggja til að endurnæra sig andlega og líkamlega í framtíðinni þegar leiðir opnast að nýju og koma og heimsækja Portúgal. Þessar herferðir eru sem sagt þegar farnar af stað. Við höfum tekið ákvörðun um að verja 1,5 milljörðum í að undirbúa slíkt átak og það verður sett í loftið þegar okkar besta fólk telur það tímabært.

Í fjórða lagi er lagt til að ráðherra sé heimilt að staðfesta ráðstöfun til markaðsátaks til stuðnings íslenskri ferðaþjónustu. Hér er horft til átaks innan lands sem getur falið í sér hvatningu til ferðalaga með útgáfu innstæðu til allra íbúa 18 ára og eldri.

Í fimmta lagi felst í frumvarpinu heimild til handa ráðherra til að leita samninga við Seðlabanka Íslands um að bankinn annist fyrirgreiðslu af hálfu ríkissjóðs til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi. Þrátt fyrir að eigin- og lausafjárstaða bankanna sé sterk og vextir hafi lækkað mikið er hætt við að sú áhætta sem einkennir efnahagslífið dragi úr vilja lánastofnana til lánveitinga, jafnvel til fyrirtækja sem geta átt sér bjarta framtíð þegar birtir til í hagkerfinu. Þetta er m.a. vegna þess að veðstaða slíkra fyrirtækja getur verið óhagstæð til lántöku. Fyrirgreiðslunni er ætlað að auka möguleika fyrirtækja í tímabundnum vanda til að afla sér tímabundins lausafjár með því móti að ríkissjóður ábyrgist helming slíkrar viðbótarlántöku. Við lánveitingarnar skulu lánastofnanir uppfylla nánari skilyrði sem ráðherra setur í samningi við Seðlabankann. Hér er gert ráð fyrir því að kveðið verði á um það í samningnum að ríkissjóður tryggi Seðlabankanum skaðleysi vegna þess kostnaðar sem hann kann að verða fyrir vegna slíkrar fyrirgreiðslu, enda er aðgerðin ekki hluti af hefðbundinni starfsemi Seðlabankans. Samningur ráðherra við Seðlabankann skal eftir föngum tryggja endurgreiðslu slíkra viðbótarlánveitinga og miða við að heildaráhætta ríkissjóðs vegna þeirra geti að hámarki numið 35 milljörðum kr. sem eru rétt um 1% af landsframleiðslu.

Í greinargerð með frumvarpinu er nánar vikið að þeirri hugmyndafræði sem býr að baki. Við höfum stillt upp lagaákvæði sem ætti með greinargerðinni að vera góður grundvöllur til að taka ákvörðun um þetta. Við sjáum fyrir okkur að það endurspeglist síðan í samningi milli ríkisins og Seðlabankans sem segir í greinargerðinni eða leiðbeiningum úr þinginu eftir þinglega meðferð. Í greinargerðinni má sjá allar helstu útlínur þessara mála. Við horfum til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 40% tekjutapi eða meira vegna þessa faraldurs. Við horfum til þess að ríkisábyrgðin eigi að tryggja hagstæðari kjör en ella væri, að bankar geti lánað á hagstæðari kjörum. Það verður að endurspeglast í kjörunum að ríkissjóður standi þarna að baki með ábyrgð. Við gerum auðvitað ráð fyrir því í þessari útfærslu að þar sem bankinn verður sjálfur að taka hluta af útlánatapsáhættunni séu í grunninn teknar ákvarðanir um slíkar lánveitingar á viðskiptalegum forsendum en þó með ríkisábyrgðinni sem við segjum hreinlega í frumvarpinu að við verðum að gera ráð fyrir að reyni á. Við sláum því fram í frumvarpinu og menn verða að virða það til betri vegar vegna óvissunnar að ekki er hægt að setja nákvæma tölu á það en við segjum: Við tökum frá í okkar bókum helminginn af þessari fjárhæð og gerum ráð fyrir að hún geti tapast. Það sýnir við hvaða aðstæður við búum. Með svipuðum hætti hljóta bankarnir að þurfa að nálgast málið, að það er ekki hægt að umgangast þessar aðstæður með sama hætti og á við í venjulegu árferði.

Hugsunin er að teygja sig til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 40% tekjutapi, að þessi lán nýtist til að standa straum af kostnaði við laun, leigu, birgðahald og aðfangakaup. Við göngum út frá því að lánin verði ekki nema u.þ.b. tvöfaldur launakostnaður síðasta árs, það eru efri mörkin sem við horfum til. Við horfum sérstaklega til fyrirtækja þar sem launahlutfallið er a.m.k. 25% af heildarkostnaði.

Ég ætla að segja að lokum að í öllum okkar aðgerðum erum við auðvitað ekki að smíða þessi úrræði til að koma fyrirtækjum sem hafa verið í vanda sérstaklega til hjálpar. Við horfum meira til fyrirtækja sem eru að lenda í vanda vegna ástandsins. Það væri ekki góð ráðstöfun af okkar hálfu á Alþingi að reyna að leysa uppsafnaðan gamlan vanda fyrirtækja sem ekki hefur tekist að að laga hjá sér reksturinn, að koma með úrræði í dag sem ættu að fleyta þeim eitthvað áfram ef fyrirséð er að jafnvel þótt ástandið lagist verði reksturinn ekki í lagi. Þetta finnst mér nauðsynlegt að nefna. Við verðum að vera hreinskilin með þetta.

Með því að ríkissjóður kemur hér með allt að 35 milljarða ábyrgð og tekur helming áhættunnar gætu lán af þessum toga náð allt að 70 milljarða fjárhæð, 2% af landsframleiðslu. Ég segi aftur að það er ofboðsleg óvissa um hvernig úr þessu spilast. Mögulega viljum við ganga lengra eftir því hvernig úr spilast á komandi mánuðum. Ég skal líka segja hreint út að það kann að vera að við þurfum að gera breytingar á endurgreiðsluskilmálunum sem við erum hérna með. Við horfum á þetta sem 18 mánaða ríkisábyrgð, að hún eigi að falla niður eftir 18 mánuði. Kannski verðum við í þeim sporum í haust eða snemma á næsta ári að þurfa að taka það aftur upp, ekki er hægt að útiloka það, og meira að segja ef þessi krísa dregst á langinn að falla frá kröfu um endurgreiðslu eins og við leggjum þetta upp. Við verðum samt að leggja af stað með þá grundvallarhugsun að þetta séu lán sem beri að endurgreiða en vegna þess hversu slæm staðan er kann að reyna á ríkisábyrgðina og það er ekki öruggt að öll þessi lán endurheimtist. Þetta ræðst allt af framhaldinu.

Í sjötta lagi eru í frumvarpinu lagðar til auknar lántökuheimildir ríkissjóðs vegna fjármögnunar þeirra aðgerða sem lúta m.a. að auknum fjárfestingum, markaðsátaks til að kynna Ísland, tekjufalls ríkissjóðs út af sveiflujöfnuninni og eins vegna frestunar gjalddaga á sköttum og gjöldum og hugsanlegs kostnaðar vegna veitingar ábyrgða á lán viðskiptabanka til fyrirtækja.

Loks er í sjöunda lagi gert ráð fyrir auknum fjárheimildum til viðeigandi málaflokka ráðuneyta sem nema allt að 21,1 milljarði. Vegur þar þyngst 15 milljarða fjárheimild til að ráðast í sérstakt fjárfestingarátak. Einnig er lagt til að veita 3,1 milljarð í sérstakan barnabótaauka og að lokum 3 milljarða til markaðs- og kynningarátaks erlendis og innan lands eins og ég hef hér rakið.

Að öðru leyti vísa ég til nánari umfjöllunar um tillögurnar í athugasemdum við einstaka málaflokka. Þá vek ég athygli á því í tengslum við hlutverk og umfang fjáraukalaga að í 24. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um almennan varasjóð A-hluta ríkissjóðs. Skilyrði fyrir ráðstöfun úr honum eru sams konar og þau sem gilda um frumvarp til fjáraukalaga, þ.e. varasjóðnum er ætlað að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Mat ríkisstjórnarinnar er að best fari á því að þau verkefni sem eru megininntak þessa frumvarps verði að svo stöddu ekki fjármögnuð með framlögum úr almenna varasjóðnum heldur óskað eftir heimildum með sérstökum fjáraukalögum. Því er ekki gert ráð fyrir því að nýta fjárheimildir sjóðsins vegna þessara mála heldur mun ráðstöfun fjárheimilda hans ákvörðuð samhliða vinnslu frumvarps til annarra fjáraukalaga sem verður lagt fram í haust.

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa farið yfir helstu þætti þessa frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2020 og legg til að því verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins sem fær málið til skoðunar.