150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég ætla ekki að elta þennan þráð neitt lengra. Ég hygg að við getum gert meira þarna. Það eru tveir aðrir þættir sem mér finnst mikilvægt að horfa líka til sérstaklega. Við höfum farið í gegnum mjög erfiðan vetur þegar kemur að raforkuinnviðum okkar. Það er alveg ljóst að þar þarf að ráðast í mikið fjárfestingarátak og þar gæti ríkið komið inn með talsverða innspýtingu af eigin fé, ekki endilega af þörf þessara fyrirtækja heldur til þess að koma í veg fyrir gjaldskrárhækkanir á dreifingarkostnaði því að þar er bara reiknað upp eftir ákveðnu reikniverki. En það er alveg ljóst að í endurnýjun og uppbyggingu byggðalínu og nauðsynlegum innviðaframkvæmdum í flutningsmannvirkjum mætti spýta verulega í. En kannski er stærsta málið í þessu, og það sem ég sakna mest, hjúkrunarrýmin sem allt of lítið hefur verið gert í allt of lengi. Mjög lengi hefur verið talað, af hálfu þessarar ríkisstjórnar, um þörf á átaki en ekki sést neitt í það í þessum áformum. Ég spyr bara: Ef ekki nú, hvenær þá?