150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:14]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég óska hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans góðs gengis í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég veit mætavel að þetta er ekki auðvelt og ég veit að fólk í öllum ráðuneytum er að gera sitt besta. Úr þessum stól vil ég einnig ítreka þakkir mínar til allra sem starfa að almannavörnum, við heilbrigðisþjónustu og að skólamálum sem standa í ströngu í því ástandi sem við búum við. Það er talsvert talað um að þetta séu fordæmalausar tímar og þeir eru það en það eru einungis 11 ár síðan íslenskt atvinnulíf og samfélag gekk í gegnum erfiða tíma í kjölfar bankahrunsins. Það vill svo til að bæði sá sem hér stendur og hæstv. fjármálaráðherra studdu saman ríkisstjórnina sem þá var að störfum sem þurfti að taka fyrstu skrefin þegar einn meginatvinnuvegur Íslands varð fyrir meiri háttar hruni. Nú er það að gerast aftur og það skiptir máli að við séum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, tiltölulega samstiga í verkefnunum fram undan. Það er einfaldlega of mikið í húfi og það skiptir máli. Þetta gerðu Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin á sínum tíma, það var gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins en líka við stjórnarandstöðuna og almenning í landinu.

Ég varpaði fram þeirri hugmynd áðan að kannski væri ráð að setja á fót rafrænan þjóðfund til að kalla eftir góðum hugmyndum frá almenningi og fyrirtækjum, ekki síst frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem geta orðið út undan þegar stórar aðgerðir eru ákveðnar. Þessi hugmynd finnst mér ekki geta verið til skaða og ágætt að reyna að fá sem flesta að borðinu og nýta sér hugmyndaauðgi íslensks atvinnulífs og almennings.

Ferðaþjónustan er augljóslega að fara að ganga í gegnum mikla erfiðleika, það eru 30.000 bein störf í ferðaþjónustunni, rúmlega þrisvar sinnum meira en var í fjármálalífinu þegar bankahrunið varð. Við sjáum að hlutfall ferðaþjónustunnar er svipað og hlutfall bankaþjónustunnar var árið 2008 og verðmætasköpunin af erlendum ferðamönnum var um 70% af því sem var í ferðaþjónustunni. Í nýsamþykktu frumvarpi félagsmálaráðherra er talað um að þessi staða gæti haft áhrif á allt að 18.000 störf þannig að við þurfum að vanda okkur við að tryggja og verja störfin. Ég hef talsverðar áhyggjur af atvinnuleysinu eins og ég veit að allir þingmenn hafa. Við þurfum að huga sérstaklega að hópi atvinnulausra og ekki gleyma því að nú þegar eru tæplega 10.000 manns atvinnulaus. Þetta er fljótt að telja og fólk sem lifir frá einum launatékka til næsta gæti lent í talsverðum vandræðum og þá skiptir máli að ríkið komi myndarlega inn og tryggi og verji atvinnu eftir því sem best er hægt.

Mig langar að fara yfir nokkra þætti sem mér finnst frekar jákvæðir í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Allir vinna átakið um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna finnst mér gott mál. Við réðumst í það eftir bankahrunið og það gafst vel. Það er ánægjulegt að þessi heimild sé útvíkkuð og látin ná til heimilisaðstoðar. Ég hélt fyrr í vetur ræðu um að skynsamlegt væri að gera það. Ég velti því samt fyrir mér og beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort við ættum að útvíkka þessa heimild. Við munum skoða það í nefndinni, væntanlega efnahags- og viðskiptanefnd frekar en fjárlaganefnd. Það mætti skoða hvort útvíkka ætti heimildina enn frekar og láta hana ná til efniskaupa annars vegar og hins vegar til vinnu utan byggingarstaðar, utan heimilis. Ég held að við ættum að skoða þær leiðir til að stuðla að aukinni neyslu og fyrst og fremst fjárfestingum. Það er ljóst að þær munu dragast allverulega saman. Þetta er gott úrræði sem við skulum útvíkka. Hugsum aðeins stærra.

Í öðru lagi finnst mér barnabótaaukinn sniðug hugmynd og styð hana. Mér finnst upphæðin reyndar svolítið rýr, 3 milljarðar, en auðvitað telur þetta allt saman. 3 milljarðar eru einungis 0,3% af ríkisútgjöldunum. Þingnefndin mun skoða þetta en það er ljóst að margar barnafjölskyldur verða fyrir talsverðu áfalli.

Í þriðja lagi fannst mér gjafabréfið vegna kaupa á innlendri ferðaþjónustu líka hljóma nokkuð vel. Í mínum huga er þetta útgáfa af svokölluðum þyrlupeningum. Það er verið að reyna að auka einkaneyslu á sama tíma og hagkerfið dregst mjög hratt saman og vextir eru lágir. Auðvitað hefur upphæðin verið gagnrýnd fyrir að vera fulllág, 5.000 kr. á hvern fullorðinn, en kannski er hægt að bæta í.

Í fjórða lagi er markaðsátak í ferðaþjónustu jákvætt. Við þurfum að ráðast í heilmikið markaðsátak í ferðaþjónustu og það er langtímaverkefni sem allir styðja. Ég vil draga það líka fram að málin sem voru samþykkt í síðustu viku og lutu að hlutabótum og launum í sóttkví eru einnig afskaplega jákvæð og ég held að mörg fyrirtæki muni nýta sér heimild um að ríkið greiði allt að 75% af launum á þessum erfiðleikatímum. Ég velti hins vegar fyrir mér hvað gerist hjá þeim fyrirtækjum sem hafa ekki einu sinni efni á að greiða 25% laun og neyðast til að loka, annars vegar fyrirtæki sem neyðast til að loka vegna algjörs hruns í tekjum og hins vegar fyrirtæki sem neyðast núna til að loka vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda. Stendur til að mæta þeim fyrirtækjum? Þau eru fjölmörg, þetta eru litlu fyrirtækin, jafnvel örfyrirtæki. Íslenskt atvinnulíf byggist fyrst og fremst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum og aðallega á örfyrirtækjum, þ.e. fyrirtækjum sem eru með einn starfsmann og upp í níu. Við þurfum að muna eftir þeim. Ég veit að margir boltar eru á lofti en ég vil nefna þetta sérstaklega, þetta er nokkuð sem við þurfum að hafa í huga.

Það er aðeins búið að gagnrýna ríkisstjórnina. Maður fer kannski varlega í að gagnrýna ríkisstjórnina, á þessum tímapunkti viljum við bara sjá það góða í tillögunum og ýmislegt er jákvætt í þeim. Auðvitað þarf að gera meira og ráðherra hefur sjálfur sagt að hér verði meira gert. Fyrir helgi var kynnt að þessi aðgerðapakki væri upp á 230 milljarða. Með sanngirni má segja að bein innspýting ríkissjóðs sé einungis um 70 milljarðar, þ.e. einn þriðji. Mér finnst við geta gert betur þar. Ríkissjóður er skuldlítill og ég bind vonir við að við spýtum meira í í þessum efnum. Ég skynja á tali þeirra ráðherra sem hafa talað í dag að hér verði bætt í.

Við sjáum í fjáraukalagafrumvarpinu sem fer til fjárlaganefndar að einungis er gert ráð fyrir 21 milljarði. Í hlutfalli við fjárlög upp á 1.000 milljarða er það ekki svo mikið, rúmlega 2% aukning fjárheimilda. Að vísu er búið að boða annan fjárauka sem er jákvætt. Ýmislegt vantar í þennan fjárauka. Núna er ekki sett króna í heilbrigðisstofnanir en búið er að segja að það komi seinna. Ég velti fyrir mér af hverju það sé ekki í þessum fjárauka. Það þarf að tryggja að heilbrigðisstofnanir fái þá fjármuni sem þær þurfa. Hér er þverpólitísk samstaða um að það verði gert en við þurfum að muna eftir að gera það.

Samhliða þessu vil ég í þessari ræðu minnast á það sem ég nefndi fyrr í dag í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra. Að sjálfsögðu þarf ríkið núna að klára kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga. Það gengur auðvitað ekki, það sjá allir, að hafa hjúkrunarfræðinga samningslausa. Þeir eru búnir að vera það í meira en ár. Hjúkrunarfræðingar eru lykilviðbragðsaðilar í því ástandi sem nú ríkir og við hljótum að geta samið við þá hratt og vel. Þá er ég að meina í þessari viku. Það vill svo til að það er samningafundur með hjúkrunarfræðingum á morgun og eins og ég gerði gagnvart heilbrigðisráðherra hvet ég sérstaklega fjármálaráðherra til að klára samninga við þessa lykilstétt. Hjúkrunarfræðingar hafa svo sannarlega svarað okkar kalli, bæði þeir sem eru starfandi núna en líka hjúkrunarfræðingar sem eru komnir á eftirlaun, þeir eru unnvörpum búnir að skrá sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar, tilbúnir að leggja sitt af mörkum, og nú finnst mér komið að okkur í þessum sal að svara þeirra kalli. Klárum kjarasamninginn, látum hjúkrunarfræðinga fá góðan kjarasamning og sérstakt álag út af þessu ástandi. Þið getið ímyndað ykkur álagið sem er núna á heilbrigðisstofnunum og því miður eru allar líkur á að álagið muni aukast til muna. Þetta er fólk sem setur sig beinlínis í hættu, bara við það að mæta í vinnuna þar sem það vinnur við að vernda okkur hin og hjúkra. Klárum þetta endilega með sóma, herra forseti.

Ég hef áhyggjur af þeim sem núna eru atvinnulausir og þeim sem eru að verða atvinnulausir. Ég hef líka áhyggjur af námsmönnum. Atvinnuhorfur námsmanna í sumar og vor eru nánast engar. Þetta eru hópar sem vinna tilfallandi störf, oft í ferðaþjónustu, hópar sem við megum ekki gleyma. Ég veit að ríkisstjórnin er ekki búin að leggja fram öll spil sem hún hefur á hendi. Það er búið að segja að meira eigi eftir að koma og þess vegna vil ég nota ræðustólinn til að draga fram hvað hægt er að gera meira og muna eftir ákveðnum hópum. Námsmenn eru þar á meðal.

Mér finnst brúarlánin nokkuð sniðug leið. Það þarf bara að gæta að skilyrðum þeirra lánveitinga, hverjir munu fá lánin o.s.frv. Það er spurning hversu vel brúarlánin henta litlum þjónustufyrirtækjum sem standa ekki í einhverjum fjárfestingum. Aftur er ég að reyna að draga umræðuna að því að við pössum lítil og meðalstór fyrirtæki, þau eru að fara að lenda í miklum vanda. Þetta eru fyrirtæki í þjónustugeiranum, hundruð fyrirtækja í ferðaþjónustu og við þurfum að muna eftir þeim. Ég hef miklar áhyggjur af þeim. Síðan eru kerfislega mikilvæg fyrirtæki eins og Icelandair sem þarf að huga sérstaklega að.

Mig langar að rifja upp ákveðnar leiðir sem við fórum eftir bankahrunið. Ég minnist ítrekað á bankahrunið vegna þess að þá réðust stjórnvöld í margs konar aðgerðir til að milda höggið og það er óþarfi fyrir okkur að finna aftur upp hjólið. Eftir bankahrunið er heil verkfærakista sem við getum leitað í. Eitt af því sem var skoðað á þeim tíma var yfirtaka og ég held að núverandi forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, hafi lagt fram frumvarp um yfirtöku á þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum. Ég veit að við erum ekki komin þangað en við þurfum að huga að því hvernig fer með stóru og kerfislega mikilvægu fyrirtækin. Þetta er ekki auðvelt, ég átta mig algjörlega á því, en Icelandair er í erfiðleikum eins og öll flugfélög í heiminum og við þurfum að huga sérstaklega að því hvort ríkið yfirtaki það einfaldlega eða hvernig það verður. Væntanlega verður allt skoðað í þeim efnum. Icelandair er fyrirtæki sem er lífæð okkar gagnvart umheiminum, ekki bara í fólksflutningum heldur líka í fraktflutningum.

Við þurfum líka að gæta okkar á því að þjóðnýta ekki bara tapið og einkavæða hagnaðinn. Mér finnst allt í lagi að í svona neyðarástandi eignist ríkið fyrirtæki, hvort sem það er í flugi eða öðru, til að bjarga starfsemi fyrirtækisins. Ég er ekki að tala um að bjarga hluthöfunum, heldur starfseminni, tryggja að starfsemin haldi áfram og bjarga störfunum. Það var gert í bankahruninu, þá voru sett sérstök lög um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Þar var opinbert hlutafélag stofnað sem hafði m.a. heimild til að eignast eignarhluti í viðkomandi fyrirtækjum. Þetta er uppbyggjandi leið sem ég er að reyna að tefla fram og hvet ráðherra til að skoða sérstaklega í ástandinu sem nú ríkir.

Ég vil líka minnast á framtakssjóðinn sem lífeyrissjóðirnir settu á fót eftir hrun. Lífeyrissjóðirnir keyptu fyrirtæki, reistu þau við og seldu síðan aftur þegar vel var gengið frá öllu saman. Þetta er leið sem ég held að við ættum að skoða í þessu fordæmalausa ástandi.

Auðvitað er freistandi að fara að hnika til tölum en væntanlega skoða báðar nefndirnar vel hvort hér sé hægt að auka aðeins í barnabótaaukann og skoða hugsanlega auknar fjárfestingar. Af fjárfestingarhlutanum sem er upp á 15 milljarða fara bara rúmir 2 milljarðar í nýsköpun og græna hagkerfið. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að auka aðeins þar í. Ég varpa því fram til viðkomandi nefndar hvort við getum ekki lagt meiri áherslu á græna hagkerfið og þannig lausnir, nýsköpun og rannsóknir. 2 milljarðar eru einungis 0,2% af ríkisútgjöldunum.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum allar góðar tillögur og við munum að sjálfsögðu reyna að bæta í þær og gera þær betri, koma með nýjar hugmyndir og kalla eftir frekari viðbrögðum. Eins og hér hefur komið fram eru þetta fyrstu skref þessarar aðgerðaáætlunar. Margt er fram undan og ég held að allir séu sammála um að hér þurfi að gera meira og hafa regluverkið þannig að jafnræði og almennar leikreglur gildi (Forseti hringir.) þannig að sómi sé að og að íslenskt atvinnulíf geti vonandi risið aftur tiltölulega hratt.