151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

kostnaður við hertar sóttvarnaaðgerðir.

[13:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Faraldurinn hefur kostað u.þ.b. 200 milljarða í beinum aðgerðum og líklega annað eins í óbeinum aðgerðum. Það er tjónið hingað til. Það liggur einhvers staðar á bilinu 300–400 milljarðar, aðeins eftir því hvernig við horfum á það. Ég held að enginn hefði getað komið í veg fyrir það. Mig langar til að segja hér að það tjón var óumflýjanlegt að verulegu leyti og okkur hefur með aðgerðum tekist að draga mjög úr því.

Þegar hv. þingmaður kallar eftir mjög hertum aðgerðum á landamærunum vil ég segja að við erum með mjög harðar aðgerðir. Við erum að leggja til að þær verði hertar enn frekar. Einhvers staðar verður að spyrja sig um meðalhóf, og það er reyndar grundvallarregla, skrifuð og óskrifuð, í íslenskum rétti sem við verðum að horfa til. Og við teljum að verið sé að taka tillit til þess, jafnvel þótt hér sé lagt upp með skyldu til að fara á sóttkvíarhótel í ákveðnum tilvikum án möguleika á undanþágu.