151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

hertar aðgerðir og markaðssetning Íslands.

[13:38]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Til að vera alveg skýr þá nýtir Íslandsstofa fjármuni í að markaðssetja Ísland og hefur verið að gera það. Það eru töluverðir fjármuni eftir af því verkefni, sem verða þá væntanlega nýttir þegar við erum lengra komin inn í bólusetningaráform okkar hér. En við notum þá fjármuni með markvissum hætti til þess bæði að mæla ferðavilja, sjá hvar helstu tækifærin eru og auglýsa Ísland meðal fólks víða um heim.

Skimunargetan hefur stóraukist og það er staða sem við þurfum á hverjum tíma að vera örugg um að geta sinnt. En það er þá líka fjárfesting sem myndi borga sig mjög hratt til að geta tekið á móti bólusettu fólki, og eins og ég nefndi hefur enginn hingað til komið bólusettur í gegnum skimun og greinst jákvæður þar. Þetta er viðleitni til að gera það sem við getum til að auka umsvif og tekjur ríkisins og íslensks atvinnulífs án þess að það sé á nokkurn hátt á kostnað sóttvarna.