Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Á þingfundi NATO-þingsins í Vilníus í gær áréttaði ég eindreginn stuðning Íslands við aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að NATO og lagði áherslu á að bæði löndin muni efla og styrkja bandalagið enn frekar. Ekki er ólíklegt að Rússar muni til lengri tíma litið endurmeta stöðu sína gagnvart NATO á norðurslóðum ef aðild norðurskautsríkjanna tveggja verður að veruleika. Þá lagði ég einnig áherslu á að okkur væri öllum ljóst að norðurslóðir eru sífellt að verða mikilvægari, ekki síst í ljósi þróunar alþjóðastjórnmála og sameiginlegs markmiðs aðildarríkjanna um að viðhalda norðurslóðum sem lágspennusvæði. Við verðum að gera ráð fyrir að Rússar bregðist við þróun mála á svæðinu. Með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar verða sjö af átta norðurskautsríkjum aðildarríki NATO. Ég tel því líklegt að það muni hafa bein áhrif á fyrirætlanir Rússa á svæðinu. Þótt það sé sameiginlegt markmið að viðhalda norðurslóðum sem lágspennusvæði þar sem stöðugleiki og samstarf ríkir verðum við að vera viðbúin þeim möguleika að Rússar ákveði að hervæða norðurslóðir enn frekar. Sama á við um Eystrasaltsríkin. Ég spurði því aðstoðarframkvæmdastjóra NATO, Mircea Geoana, hvaða áhrif þróun mála á svæðinu hefði á hlutverk NATO á norðurslóðum. Hann svaraði því til að innganga Finnlands og Svíþjóðar í NATO hefði klárlega mikil áhrif á stöðugleika á Eystrasaltssvæðinu. NATO hefði hins vegar ekki beinu hlutverki að gegna á norðurslóðum en með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar muni áherslur á svæðið aukast. Áfram verði þó áhersla á sameiginleg markmið aðildarríkjanna og norðurskautsríkjanna um að viðhalda norðurslóðum sem lágspennusvæði.